13.8.2023 | 07:26
Upplifun sett framar staðreyndum?
Synd væri að segja, að ekki hafi verið eitt og annað í fréttum síðustu daga.
Einna efst stendur í huga þess sem þetta ritar, aðsend grein í Morgunblaðið eftir framkvæmdastjóra félaga fyrirtækja í sjávarútvegi, en í henni segir m.a.:
,,Við myndun þeirrar ríkisstjórnar sem enn situr þegar þetta er ritað var gerður sáttmáli líkt og hefðbundið er, þar sem meðal annars var fjallað um áherslur tengdar sjávarútvegsmálum. Var þar um samið á meðal ríkisstjórnarflokkanna þriggja, að meta skyldi þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. Sérstök nefnd skyldi í þessum tilgangi skipuð og henni meðal annars falið að bera saman stöðuna hér á landi og erlendis. Að svo búnu ætti að leggja fram tillögur til að hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs og samfélagslegrar sáttar."
Pistilinn er, þegar grannt er lesið, nær samfelld ádrepa á framgöngu ríkisstjórnarinnar og þó sérstaklega þess ráðherra sem með málaflokkinn fer.
Gefin voru fögur fyrirheit, en ekki verið unnið eftir þeim og greinarhöfundur segir m.a.:
,,[...]merkilegt [er] að lesa nýlega grein matvælaráðherra, sem virðist líta svo á að það mikilvægasta sé að upplifun almennings af grunnatvinnuvegi þjóðarinnar sé betri. Í heilli grein um þessar bráðabirgðatillögur er hvergi talað um miklar tekjur sem sjávarútvegur hefur skapað íslensku þjóðinni og íslenskum stjórnvöldum í formi skatttekna, sem hafa lagt grunn að þeim lífsgæðum sem við búum við. Það er eins og það skipti engu máli í hinni pólitísku mynd. Óljós upplifun virðist einfaldlega skipta meira máli en verðmætasköpun og sá hagur sem vel rekinn sjávarútvegur færir þjóðinni."
Best er að lesa pistilinn eins og hann birtist í Morgunblaðinu, en niðurstaða þess sem þetta ritar er, að ekki hafi verið staðið við þau fögru fyrirheit sem farið var fram með í stjórnarsáttmálanum, eða eins og segir í pistlinum, að meira sé lagt uppúr ,,upplifun" en verðmætasköpun.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:27 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.