10.8.2023 | 06:41
Orkumál og orkuskipti?
Halldór Halldórsson skrifaði grein um orkumálin sem birtist í Morgunblaðinu 4. ágúst síðastliðinn og þar segir hann m.a.:
,,Ef við sleppum húshitun, [...], þá framleiðum við 60% annarrar orku með raforkuöflun en 40% flytjum við inn í formi olíu. Sá innflutningur kostar okkur 100 milljarða á ári. Olían er notuð af bílum og stærri tækjum 22%, skipin nota 26% og flugið notar 52% (orkuskipti.is)."
Og bætir síðan við:
,,Það er auðvelt að ímynda sér að þegar ráðherrar og þingmenn ríkisstjórnarmeirihlutans lesa þetta (sem þeim ber að gera reglulega) stressist þau verulega upp því það eru rétt 17 ár í að Ísland eigi að vera laust við olíunotkun. Ástæðan fyrir reglulegu stresskasti er auðvitað sú að það er búið að byggja upp þvílíkt skrifræðiskerfi á Íslandi varðandi orkuöflun að nánast vonlaust er að virkja okkar umhverfisvænu vatnsöfl en virkjun þeirra er jú eina leiðin til að losna við alla þessa olíu eigi síðar en árið 2040, fyrst þjóða. Hin ástæðan er sú að hluti pólitískt kjörinna fulltrúa kærir sig ekkert um að nýta endurnýjanlega íslenska orkugjafa og fer að fabúlera um að hægt sé að gera þetta einhvern veginn öðruvísi án þess að útskýra það eða rökstyðja með sannfærandi hætti."
Halldór heldur síðan áfram hugleiðingum sínum og segir að við þurfum að tala skýrt, því við séum að glíma við þversagnir, þar sem ríkisstjórnin ásamt sumum þingmönnum annarra flokka ,,tali um orkuskipti og græna orku, en hluti ríkisstjórnarinnar sé ekki spenntur fyrir því að virkja vatnsföllin til öflunar á hinni grænu orku".
Halldór minnir á hve langan tíma það taki að undirbúa virkjanir og nefnir töluna ,,10 ár" í því sambandi og bendir á þá ljósu staðreynd að það þarf að afla annarrar orku ef ætlunin er að hætta olíubrennslu.
Halldór minnir á að við eigum fjölmarga kosti til öflunar raforku og þó friða þurfi sum svæði, þá séu nægir virkjanakostir eftir og bendir á að við séum sem þjóð ,,góð í náttúruvernd".
Og niðurstaðan er:
,,að við framleiðum 20 teravattstundir af rafmagni á ári hér á Íslandi en til að gera stefnu ríkisstjórnarinnar að veruleika þarf að framleiða 16 teravattstundir til viðbótar árlega til að ná fullum orkuskiptum. Næstum jafnmikið og við framleiðum í dag. Og við höfum 17 ár til þess."
Ekki er víst að þessar tölur séu nákvæmlega réttar og vitanlega má deila um þær.
Þjóðinni fjölgar ört og ekkert lát virðist vera þar á og því gæti vel verið að afla þurfi meira en 16 teravattstunda til að uppfylla þörfina fyrir orku í komandi framtíð.
Það er erfitt að spá og sérstaklega erfitt að spá um framtíðina, en það breytir ekki því, að ekki fer saman hljóð og mynd hjá þeim sem telja sig vera verndara vatnsfalla, jarðhitasvæða og náttúrunnar.
Við verðum að átta okkur á því, að það verður ekki bæði sleppt og haldið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:44 | Facebook
Athugasemdir
Sammála, já og þó aðallega þau sem sjá um málefnavinnuna hjá VG sem þurfa að átta sig á þessari þversögn. Þau þurfa væntanlega að uppfæra bæði áætlanir og kosningastefnuskrár fyrir næstu kosningar svo stefnan verði trúverðugri. Góð kveðja, RGB.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 10.8.2023 kl. 09:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.