Hálfkák ríkisstjórnar, efnahagsmál og veisla

Skjámynd 2023-06-07 075622Það er ekki oft sem leiðari í dagblaði vekur bloggara af blundi, hálfsofandi fyrir framan skjáinn, en það gerðist í morgun þegar rennt var yfir Morgunblaðið, en þar sagði m.a. þetta um áhuga ráðherra Framsóknarflokksins á aðhaldi í ríkisrekstri:

,,Það er átak­an­legt að hlusta á innviðaráðherra tala um aðhald í rík­is­rekstri fyr­ir há­degi og 14 ný göng eft­ir há­degi, en þá verða fjöll­in víst búin.“

Skömmu seinna er vikið að aga í ríkisútgjöldum hjá því sem sumir kalla slumpastjórninni og aðrir slettustjórninni, þar sem slett er fram 2 milljörðum í eitt og 1.2 í annað o.s.frv.:

,,Það ber ekki held­ur vott um aga í rík­is­út­gjöld­um þegar sveit­ar­fé­lög­un­um voru af­hent­ir 5 millj­arðar vegna mál­efna fatlaðra án þess að ráð væri fyr­ir því gert og án umræðu að séð verður. Eða að 15 millj­arðar fari nær stjórn­laust í mál­efni hæl­is­leit­enda á ári án þess að það megi ræða það nema í hálf­um hljóðum.“

Síðan kemur þessi ádrepa:

,,Væri rík­is­stjórn­inni al­vara með aðgerðunum, þá væru þær ekki smá­plástr­ar af þessu tagi. Það kæmi tekju­lág­um og barna­fólki bet­ur að lækka virðis­auka­skatt á mat­vöru en að gramsa í milli­færslu­kerf­inu. Ef það á að lina hús­næðiskrepp­una þá þarf rík­is­valdið að geta lagt sveit­ar­fé­lög­um lín­urn­ar um lóðafram­boð. Ef það á taka frá pen­inga fyr­ir framtíðina væri nær að greiða niður skuld­bind­ing­ar vegna Líf­eyr­is­sjóðs starfs­manna rík­is­ins (LSR) en búa til Þjóðarsjóð. Og ef ríkið vill draga úr þenslu þá eru hæg­ust heima­tök­in að draga úr þenslu rík­is­ins.“

Í vísnahorni Halldórs Blöndal í Morgunblaðinu 7.6.2023, sama dag og leiðarinn birtist, má lesa eftirfarandi vísu eftir Káinn:

,,Þegar fátt ég fémætt hef/í fórum mínum/úr sálarfylgsnum gull ég gref/og gef það svínum.“

Og einhvern veginn er það svo, að þó margar blaðsíður hafi verið á milli leiðarans og vísnahornsins, er sem þetta hafi verið valið saman af vandlegri yfirvegun!

Á sömu síðu og leiðarinn er síðan vönduð umfjöllun um efnahagsmál með fyrirsögninni: ,,34.000 fjölskyldur undir lágtekjumörkum“ og þar segir:

,,Allt að 48 þúsund ein­stak­ling­ar og tæp­lega 34 þúsund fjöl­skyld­ur hér á landi voru und­ir lág­tekju­mörk­um á ár­inu 2020 og eru þá meðtald­ar hús­næðis- og barna­bæt­ur í ráðstöf­un­ar­tekj­um þeirra. Að meðaltali vantaði þær rúm­ar 2,1 millj­ón kr. í ráðstöf­un­ar­tekj­ur á árs­grund­velli til að ná skil­greind­um lág­tekju­mörk­um.“

Þessu til viðbótar er einnig á leiðarasíðunni aðsend grein eftir Helgu Völu Helgadóttur og má þá segja að ein blaðsíða í dagblaði teljist fullsköpuð!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband