15.5.2023 | 12:04
Þverstæður og andstæður
Jakkaföt og væntanlega menn til að vera í þeim, öryggismyndavélar, lúxuskerrur, öryggisverðir og Harpa og er þá eflaust ekki allt upptalið. Og fyrst það ágæta hús er nefnt, þá er vandséð hvernig þjóðin hefur getað komist af, áður en það var byggt.
Ekki má gleyma þjálfun þeirra sem jakkafötin eiga að prýða. Hún er partur af galskapnum og rétt er að taka fram, að í krafti jafnréttis en ekki bræðralags, koma til með að fylla upp í fötin bæði karlar og konur, því enginn efi er á að haldið verður vel á jafnréttisspilunum.
Þjálfun mannskapsins verður í takti við umfangið sjáum við - og af því má ráða að þjálfunin sé bæði góð, mikil og vel útfærð.
Við sjáum hér að ofan nokkur skjáskot af fréttum Morgunblaðsins, af því sem um er að vera í Reykjavíkinni, höfuðborg allra Íslendinga og gott ef ekki heimsbyggðarinnar líka, a.m.k. þann tíma sem húllumhæið stendur yfir.
Ekki þó heimsbyggðarinnar allrar, því vesenið snýst ,,aðeins um eitthvert Evrópuráð og alls ekki heimsbyggðina. Evrópuráð sem er ekki er nema nafnið eitt, nema að búið sé að breyta álfunni.
Upplýst er, að víðlendasta landið í álfunni er ekki með í galskapnum vegna alþekktrar óþolinmæði sinnar við nágrannaríki og því er það, að sendiherra Rússlands skrifar grein í Morgunblaðið og sá er mátulega kátur svo sem við er að búast.
Við sjáum líka, að þeir eru til sem láta sér fátt um finnast og ,,þjónusta sölu rússneskra afurða hvað sem allri múgæsingu líður og banni íslenska stórveldisins á skyrsölu til hins forna Garðaríkis.
Hvort bannað er líka að selja þangað rjóma vitum við ekki, en verið getur, að Rússar framleiði núorðið sitt skyr og að rjómann fá þeir úr sinni rússnesku mjólk.
Netárásir eru í miklum blóma vegna fundarins og aldrei að vita nema einhverjir 21. árs gamlir guttar taki til við að streyma gáfnastraumnum vítt um veröld alla líkt og þegar hefur gerst í guðseigin- landi.
Helsta fréttin er algjörlega utan við þetta allt saman, en samt allrar athygli verð. Þar er sagt frá því, að til standi að byggja fjöldann allan af kjarnorkuverum í löndum Evrópuráðsmanna og eins og við má búast, stendur til að verin framleiði raforku íbúunum til heilla.
En þar stendur hnífur í hinni rússneskri kú, því eldsneytið þarf að sækja þangað þ.e. til Rússlands, til að hugmyndin gangi upp, virðist s.s. þurfa að róa Zelensky og félaga, að ógleymdum rússneskum stjórnvöldum.
Hvernig snillingunum á Evrópuráðsfundinum gengur að koma öllu þessu heim og saman verður fróðlegt að fylgjast með.
Þverstæður og andstæður, fýluköst og almenn uppköst eru þeirra sérgrein og því gerum við ráð fyrir að kastað verði upp á það, hvort vesturhluti Evrópu skuli verða rafmagnslítill heimshluti, eða knúinn áfram af rússneskri orku.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.