13.10.2022 | 09:03
Þörfin fyrir fólk
Þorsteinn Pálsson skrifar grein í Fréttablaðið (13.10.2022) undir yfirskriftinni ,,Tilvísun eða frávísun" og bendir á margt sem við þurfum að hafa í huga þegar rætt er um fólk sem flytur til landsins, hvort heldur sem er, til lengri eða skemmri tima og segir þar m.a.:
,,Vinna þeirra og flóttamanna er forsenda fyrir hagvexti og velferð í landinu. Útlendingaandúð samræmist [...] ekki óskum um betri lífskjör. En það breytir ekki hinu að full þörf er á ríkari málefnalegri umræðu um þessi efni en verið hefur."
Og síðan:
,,Hagstofan áætlar að á næstu tíu árum fjölgi starfsfólki á vinnualdri um 34 þúsund. Náttúruleg fjölgun íbúa mun aðeins fylla 6 þúsund þeirra starfa og standa undir 0,5 prósenta hagvexti. Samtök atvinnulífsins telja að á næstu fjórum árum þurfi 12 þúsund útlendinga inn á vinnumarkaðinn. Samtök iðnaðarins ætla að á næstu fimm árum þurfi 4.500 erlenda sérfræðinga einungis fyrir hugbúnaðargeirann."
Það er augljóst af því sem fram kemur í greininni að þörf er fyrir fólk erlendis frá, ef við viljum halda uppi hagvexti.
Rifjast þá upp þegar þáverandi ríkisstjórn tók það framfaraskref að fara í að virkja Þjórsá við Búrfell og einnig í að byggt var álver í Straumsvík.
Framkvæmdir sem rifu þjóðfélagið upp úr stöðnun. Við búum enn að þeirri framsýni sem sýnd var með því að fara í þessi verk. Þá skapaðist þörf fyrir aðflutt fólk til að vinna við framkvæmdirnar.
Þær hefðu ekki náð fram að ganga nema vegna þess að fólk kom til landsins til að vinna verkin sem vinna þurfti til að mannvirkin yrðu að veruleika.
Í hjáverkum bjuggu sumir til nýja þjóðfélagsþegna samfélaginu til hagsbóta og frískunar en það er önnur saga!
Þegar síðar kom að stækkun og frekari framkvæmdum þar uppfrá, komu menn til að setja upp vélar m.a. frá Rússlandi og mér er kunnugt um að sumir minnast þeirra með hlýju.
Hvort þeir tóku að sér aukaverk af fyrrnefndu tagi til að auðga íslenskt þjóðfélag veit ég ekki.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.