1.10.2022 | 11:50
,,Það er vont en það venst"
Biden hinn bandaríski telur sig geta dæmt, hótað, framkvæmt og spekúlerað.
Nei annars, það síðasta getur hann ekki og því er hann með aðra í því.
Hótað getur hann og komið hótunum í framkvæmd, því hann er með mannskap til þess.
Og dæmt getur hann, því það geta allir!
Hann hótaði varðandi gasleiðslurnar og það gekk fram sem hann hótaði og heimsbyggðin horfir upp á afleiðingarnar.
Getan er mikil til að gera illt og löngunin líka.
Hvort hann sér ,,mig sig" í Putin er ekki ólíklegt, en alls ekki víst að hugsunin nái svo langt.
Zelensky ,,vinur" hans vill komast í NATO strax, og með flýtimeðferð.
Hreint ekki útilokað að svo verði, því hinn grænklæddi garpur hefur lagt sig vel fram til að geta hlotnast hnossið.
Úkraína hefur verið nærð af vopnabúnaði, þjálfun og einstaka hugprúðum vestrænum riddurum, sem jafnvel hefur verið skilað til síns heima, af Kremlverjum eftir að ,,þjónustan" hefur leitt þá á þeirra fund.
Heimsbyggðin á að þrengja að Rússum samkvæmt óskum Bidens og ,,heimsbyggðin" svo langt sem hún nær í huga þess ágæta manns, virðist taka undir óskina.
Finnst kannski betra að vera ekki með óþægð við höndina sem gefur, þegar vel stendur á, en réttir fram krepptan hnefann ef svo ber undir.
Áður fyrr voru gengnar Keflavíkurgöngur göngugörpum til heilsubótar og fróunar.
Tilgangurinn var krefjast brottfarar bandarískra hermanna sem hýrast þurftu á Keflavíkurflugvelli. Mönnum sem voru þar langt frá sínum og sinni heimabyggð, en voru blessunarlega lausir við að þurfa að vera í Vietnam eða annarsstaðar á meðan þeir dvöldu á því vindbarna nesi.
Félagar þeirra sem féllu í Vietnamstríðinu, eða voru hnepptir í fangelsi hjá andstæðingi sínum, hefðu trúlega þegið að fá að dvelja á nesinu við ysta haf, hefði það verið í boði.
Göngugörpunum sem vildu dátana á brott, sást yfir að þeir voru ekki sendir frá landi sínu að eigin ósk og þó þeir hafi ekki tekið þátt í göngutúrunum, þá er eins líklegt að þeir hafi óskað hins sama og hinir gönguglöðu, að minnsta kosti til hálfs.
,,Það er vont en það venst" hefðu þeir eflaust getað tekið undir í útkjálkaverunni, en hefðu þeir verið sendir á blóðvöll tilgangsleysisins hefðu þeir trúlega tekið undir ,,það er vont en það versnar".
Hvað verður um hina herteknu og heimsendu úr Úkraínustríðinu vitum við ekki og þaðan af síður hvað þeir kyrjuðu, ef það var þá eitthvað.
Trúlega er samt skárra að vera kominn heim!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.