2.7.2022 | 07:39
Jón og séra Jón - enn og aftur
Til stendur að senda til baka fólk sem hingað hefur flúið úr hörmulegum aðstæðum.
Fólk sem lagði á flótta frá sínu heimalandi vegna stríðsátaka.
Það er nokkuð sem við þekkjum orðið vel og í heimsstyrjöldinni annarri, sem svo er kölluð, var fólki sem hingað sótti og var á flótta snúið til baka - stundum en ekki alltaf, sem betur fer.
Nú á að fara að endurtaka þetta, gagnvart sumum en ekki öðrum, líkt og þá var gert.
Hvernig er þetta í hinu góða Íslandi, þar sem tekið er opnum örmum við stríðshrjáðu fólki, mæðrum, börnum og gæludýrum þess?
Fólki sem kemur úr yfirfullum flóttamannabúðum.
Er ekki sama hvernig það er á litinn?
Hvað er það sem ræður og eftir hverju er flokkað?
Erum við svona rasísk og er það hin raunverulega ástæða sem ræður för?
Skýtur ekki skökku við að senda til baka fólk sem hér er sest að og er jafnvel komið með börn í skóla, á meðan tekið er vel á móti öðrum sem eru líka að flýja stríðsátök?
Bera því við að þau sem brottræk eru, séu komin með landvistarleyfi til að dvelja á götunni í Grikklandi og segja sem svo:
Þarna máttu dvelja með börnin þín og ef vel tekst til, geta þau betlað fyrir mat, í sig og ef heppnin er með eitthvað handa mömmu sinni og kannski er litla systir orðin nógu stór til að selja....sig ókunnum körlum fyrir smá aur.
Og verður eftir það ötuð ,,auri".
Erum við við svona?
Og viljum við vera svona í boði rikisstjórnar Íslands, landsins sem við vorum svo heppin að fæðast í?
Landsins sem þessa dagana glímir við þann vanda helstan að greiða dómurum of há laun og hækka önnur laun og svo framvegis.
Að því ógleymdu að gera sig gildandi á erlendum vettvangi, með glennum og alls konar sprikli og lætur sér jafnvel detta í hug að koma sér upp her.
En kannski var það nú bara blaður í einum svokölluðum ,,álitsgjafa", sem enginn gefur neitt fyrir!
Byggt á frétt á visir.is og myndin er þaðan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.