Framsókn leysir vandann.

Það er hugur í þingmönnum Framsóknarflokksins og þeir eru spretti, til að ná Spretthópnum þeirra Svandísar Svavarsdóttur og Steingríms Sigfússonar.

Það sjáum við í grein eftir þrjá þingmenn Framsóknarflokksins, þau Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur, Höllu Signýju Kristjánsdóttur og Þórarninn Inga Pétursson.

Þau hafa komist að því að búgreinar á Íslandi eru:

Sauðfjárrækt, Nautgriparækt og Svínarækt, og sú síðastnefnda kemur til sögunnar sem einskonar síðbúin viðbót undir lok skrifanna, sem gera má ráð fyrir að komi þannig til, að þingmennirnir hafi allt í einu minnst þess, að hafa fengið sér svínahamborgara á jólunum, eða beikon og egg..., nei frekar beikon án eggja, því egg eru að öllum líkindum, ekki á borðum á heimilum þessara þingmanna.

Grænmeti snæða þau líklega ekki heldur, því það er ekki landbúnaður!

Alifuglakjöt er að sjálfsögðu ekki talinn vera matur hjá Framsókn og þaðan af síður landbúnaður!

Svínakjöt, jú það má kannski fá sér smá ögn af því! Svona aðeins BARA.

Það góða við skrifin er að þingmennirnir eru búnir að finna gott ráð til að leysa rekstrarvanda landbúnaðarins í þeirri viðskiptaþvinganakreppu sem búið er að koma á laggirnar, eða a.m.k. eins og þau skilgreina íslenskan landbúnað.

Lausnin felst í því ,,að komið verði á tímabundinni undanþágu frá virðisaukaskatti til frumframleiðenda" eins og þar segir.

Nánari skýring er svohljóðandi á framsóknsku:

,,Á öll innlegg bænda er lagður virðisaukaskattur og varðandi þær kjötgreinar, sem talað er um hér að ofan, snýr hugmyndin að því að komið verði á undanþágu frá virðisaukaskatti, sem kemur sem útskattur á framleiðandann, til tveggja ára. Þar sem bændur greiða þá ekki útskatt af sínu innleggi en á móti fá þeir innskattinn endurgreiddan, eins og gengur. Þannig má tryggja allt annan rekstrargrundvöll."

Já svona ,,eins og gengur".

Og eins og hver maður sér, þá er vandamálið leyst fyrir uppáhaldsbúgreinar Framsóknarflokksins og skattakerfið, og engin ástæða er til að efast um snilldina sem í þessu felst, fyrir framsóknarlandbúnaðinn!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er ágætt að þingmenn, bæði núverandi og fyrrverandi, taki smá sprett. Hef hins vegar nokkrar áhyggjur af því að sumir þeirra ofgeri sig, komist ekki í mark. Sér í lagi þeir fyrrverandi.

Gunnar Heiðarsson, 9.6.2022 kl. 20:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband