30.11.2021 | 16:52
,,Ný" ríkisstjórn og umhverfismálin
Í Morgunblaðinu (30.11.2021) eru tvær greinar sem vekja athygli. Önnur heitir ,,Kolsvart fótspor rafbílsins" og geta áskrifendur Morgunblaðsins nálgast hana á slóðinni en aðrir á meðfylgjandi mynd.
Í greininni sem Sigurbjörn Svavarsson ritar, koma fram margar ábendingar varðandi svokallaða rafbílavæðingu, sem látið er í veðri vaka að muni eyða kolefnisspori ökutækja.
Greinarhöfundur kemur fram með áhugaverðar ábendingar og víst er að ekki er allt sem sýnist, því til smíði rafbíls þarf umtalsvert magn af fágætum málmum.
Það þarf nikkel, mangan og kóbalt svo dæmi sé tekið, auk umtalsverðs magns af kopar og eftirsóknin er slík að fyrirhugað er að sækja í málmgrýti á 4500 metra dýpi í Kyrrahafinu eftir því sem fram kemur í greininni.
Hvernig vinstrigræningjar allra flokka og heimsbyggðarinnar ætla að svara fyrir þessa taumlausu sóun á auðlindum Jarðarinnar er ekki gott að segja, en trúlega er treyst á að fólk framtíðarinnar finni lausn á vandamálinu þegar þar að kemur.
Koma tímar koma ráð er stundum sagt, þegar menn vilja ekki skemma fögnuð nútíðarinnar með vandamálaumræðu eða raunsæi og mun vera sótt til þess þegar t.d. danir vilja vera léttir á því og fresta því að taka á vandamálum líðandi stundar.
Það er viðhorfið, en það jákvæða er að til eru þeir sem hugsa lengra og hvernig hægt sé að framleiða farartæki sem minna menga með tilveru sinni, þ.e.a.s. ef þau eru notuð. Torveldara mun verða að tryggja mengunarlaust framleiðsluferli í efni og smíði!
Þeir sem hafa fyrir því að lesa grein Sigurbjörns og ýmsar aðrar staðreyndir sem fyrir liggja varðandi þessi mál hljóta að sjá að lausnirnar á loftlagsmengun og annarri mengun sem af athafnasemi okkar mannanna leiðir eru alls ekki auðveldar né auðfundnar.
Það er freistandi að gera bara eitthvað frekar en ekkert, en enn meira freistandi er að stíga yfirveguð skref og gera það sem rétt er.
Við munum kosningaslagorð Framsóknarflokksins í alþingiskosningunum síðastliðnum. Þar var farið fram með það að best væri bara að kjósa Framsókn; setja x-ið við B og vera ekkert að eyða tímanum í að hugsa.
Það er dálítið þannig sem gengið er fram varðandi aðgerðir í loftslagsmálunum: Bara gera eitthvað!
Rafmagnsbíla, rafmagnsskip og rafmagnsflugvélar, svo vitnað sé til nokkurra ára gamals viðtals við formann þess sama flokks fyrir nokkrum árum. Og þar talaði hann meira að segja um að Ísland yrði í fararbroddi í þróun slíkra tóla!
Eitt sinn lýstum við upp með grút. Seinna komu olíulampar og að lokum ljóstvistar (led- díóður) og alls ekki er útilokað að orkumálin eigi eftir að þróast á þann hátt sem við sjáum ekki fyrir og vel getur verið að íslenskt tæknifólk eigi eftir að koma að þróun farartækja framtíðarinnar.
Við ættum samt að hreykja okkur ekki of hátt, því líklegast er að grunnþekkingin komi að utan eins og áður.
En aftur að rafbílavæðingunni.
Á öðrum stað í Morgunblaðinu ritar Þórunn Sveinbjarnardóttir grein, ,,Ylvolgur og óljós sáttmáli" sem ekki er útilokað að áskrifendur Morgunblaðsins geti nálgast á tenglinum hér að ofan.
Þórunn er athugul og greinin er augljóslega skrifuð í tilefni af endurreistu stjórnarsamstarfi þriggja flokka, þeirra sömu og áður sátu.
Við vitum að alþingi það sem nú situr, er með umdeilt umboð og þar af leiðir að svo er einnig um ríkisstjórnina. Meirihlutinn sem situr á þingi og sem styður ríkisstjórnina er rúmur, en er hann réttur, þ.e. rétt kosinn? Það er vafinn eins og alkunnugt er og kemur rafbílavæðingu ekki við!
Þórunn hefur áhyggjur af því að sjálfstæðismenn séu komnir í Umhverfisráðuneytið og segir sem svo, að sjálfstæðismenn sjái aðeins leið eina færa ,,...í baráttunni við hamfarahlýnun, að stuðla að orkuskiptum í samgöngum." og segir síðan að vissulega þurfi [þau orkuskipt] að eiga sér stað, en tekur jafnframt fram að fleira þurfi að koma til varðandi lausn á svo flóknu vandamáli sem um sé að ræða, t.d. ,,hágæða almenningssamgöngur" og bendir í því sambandi á það sem dags daglega er kallað ,,Borgarlína", varðandi samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.
Lausn orkuvandans er ekki einföld, en hún mun finnast og fyrir litla ríkið Ísland er málið ekki stórt. Þegar er farið að grilla í tækni til að knýja ökutæki á vistvænni orku og þó það sé fyrst og fremst ætlað fyrir stærri ökutæki, er fátt því til fyrirstöðu að sú tækni geti dugað fyrir fjölskyldubílana. Sama tækni er í reynslu í skipum og svo langt aftur sem á dögum gömlu Sovétríkjanna voru þar gerðar tilraunir með flugvélar sem nýttu sér þá tækni.
Við ættum því ekki að gefa upp vonina að óhugsuðu máli!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.