31.10.2021 | 17:51
Uppgangur i Þorlákshöfn
Á suðurströnd Íslands er lítið um hafnir og í raun er það aðeins ein sem talist getur vera raunveruleg höfn.
Og lesa hefur mátt í fréttum að undanförnu um uppbyggingu hafnarinnar í Þorlákshöfn.
Erlent skipafélag hefur um nokkurn tíma stundað millilandasiglingar til hafnarinnar og nú er hugað að stækkun hennar.
Það er spennandi að fylgjast með uppbyggingunni sem verið hefur í Þorlákshöfn og stækkuninni sem fyrirhuguð er.
Sá sem þetta ritar man þá tíma þegar varasamt þótti að fara á flutningaskipum inn til Þorlákshafnar og eftir að gámaskipin komu til þótti það enn varasamara.
Það mun hafa verið 1971 sem ritari hafði verið ráðinn á skip sem lónaði fyrir utan höfnina dögum saman og það fór svo að lokum, að ákveðið var að sigla því til Reykjavíkur og aka korninu sem í því var til Þorlákshafnar til vinnslu í fóðurverksmiðju sem SÍS rak þar á þessum tíma.
Ekki var um að ræða gámaskip, heldur flutningaskip sem ætlað var til ,,heilflutninga" svo sem kallað var. Skipið hét Mælifell.
Ritari var á skipinu um nokkurn tíma og sigldi m.a til hafnarinnar Agusta á Sikiley til að lesta fullfermi af áburði til nota í íslenskum landbúnaði.
En það er ekki eingöngu hafnarframkvæmdir sem eru fyrirhugaðar í Þorlákshöfn, því til stendur að hefja framleiðslu á íblöndunarefni í sement og til þess að það sé hægt, þarf að koma þar upp og byggja verksmiðju.
Og það er gott og traust fyrirtæki sem að því stendur. Fyrirtæki sem um áratugi hefur framleitt steinsteypu og fleira við góðan orðstír.
Rætt er við bæjarstjórann í Þorlákshöfn af þessu tilefni og hann er að vonum kampakátur yfir þróuninni og þeir sem farið hafa til Þorlákshafnar nýlega og séð uppbygginguna sem þar á sér stað skilja vel að yfir sé að gleðjast.
Hvert sem farið er blasir við uppbygging og glæsileiki og stór svæði þar sem innflutningsvörur bíða þess að vera tekin til gagns af þeim sem á þurfa að halda.
Þegar ritari fór þar um fyrir nokkrum vikum mátti sjá bíla, hjólhýsi og sitthvað fleira í stórum breiðum á bæjarsvæðinu.
Að auki var búið að byggja upp svo mikla byggð með götum og tilheyrandi að bærinn kom ókunnuglega fyrir sjónir þeim sem ekki hafði komið þar lengi.
Glæsileg þjónustumannvirki bæjarfélagsins blöstu meðal annars við og tekin var ákvörðun um að fara aftur til Þorlákshafnar til að skoða bæinn betur og velja til þess rúman tíma.
Auk þess sem hér hefur verið nefnt mun vera hugur í mönnum sem stunda fiskeldi (landeldi) að auka umsvifin og alls ekki er víst að þar með sé allt upp talið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.