Stjórnmálin skoðuð með augum Vilhjálms Bjarnasonar

2021-08-13 (2)Vilhjálmur Bjarnason fyrrverandi alþingismaður ,,sem hefur lokið afskiptum af stjórnmálum", skiptir sér af stjórnmálum með öðrum hætti en áður var, þ.e.a.s. þegar hann var á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hristi þá stundum upp í kollum sem lagst höfðu í dvala.

Nú skrifar hann áhugaverðar greinar um stjórnmál og ein slík birtist í Morgunblaðinu fyrir stuttu og við grípum á lofti nokkur gullkorn. Hér er gosdrykkjakenningin:

,,Um margt líkjast stjórnmálaflokkar gosdrykkjum. Með því er átt við að í stríði Coke og Pepsi koma fram nýir coladrykkir. Nýju drykkirnir ná engri fótfestu en sala á Coke og Pepsi vex í kjölfarið."

Þá eru það flokkarnir sem fáir ef nokkrir skilja, þar sem safnast er saman um einn einstakling með óljósar hugmyndir um veröldina sem hann telur að hafi verið sköpuð fyrir hann og hans en ekki hina:

,,Eins manns flokkur [Miðflokkurinn] án málefnis, en leitar þó að „kosningamálefninu“. Í eins manns flokknum verður til „trúarhreyfing“, trú á hinn óskeikula foringja, þar sem orðaflaumurinn gusast út eins og tómatsósa, en að öðru leyti algerlega innihaldslaust blaður. Þar væla innmúraðir um að þeir hafi þekkt foringjann lengi og „hann hefur alltaf rétt fyrir sér“ , eins og vælt var á Klausturbar. Þessi foringi varð til fyrir slysni í kosningu til formanns í öðrum stjórnmálaflokki, þar sem formannshallæri hafði verið í 3 ár."

Næst grípum við á loft þá sem eru á ,,einhverju rófi", hugsanlega pí rófi og er þá illa komið fyrir hinu gríska stærðfræðitákni:

,,Meðlimir þess flokks [Pírata] virðast flestir hverjir vera á einhverju rófi sem engir skilur, ekki einu sinni þeir sjálfir, því þar þarf að kalla til vinnustaðasálfræðing til að fundir fúnkeri, og fúnkera þó ekki."

Að lokum er það hinn eini sanni Flokkur með stórum staf og sá er afgreiddur með nokkrum texta:

,,Einn af forystumönnum Sjálfstæðisflokksins sagði eitt sinn: „Í húsi föður míns eru margar vistarverur“ og átti þá við að flokkurinn yrði að þola innri fjölbreytni. Nú er fjölbreytninni úthýst og spyrja mætti hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé að verða eins máls flokkur þar sem „hagkvæmni“ fiskveiðistjórnarkerfisins ræður för? Forysta flokksins tók þá afstöðu árið 2014, eftir að hafa lofað „þjóðaratkvæðagreiðslu“ um aðild að Evrópusambandinu, að afturkalla aðildarumsókn, sem að öðru leyti lá í svefni og skaðaði engan. Þetta leiddi til þess að stór hópur í atvinnurekendaliði Flokksins sagði skilið við Flokkinn og gekk til liðs við nýjan smáflokk! Góð leið til að minnka stjórnmálaflokk! Það er einnig góð leið til að minnka flokk að viðhalda óskiljanlegri umræðu um fullveldi á plani frá 1918! Hvernig má það vera að flokkur, sem var með 40% kjörfylgi, telur það ásættanlegt að fá 25% kjörfylgi? Vissulega varð fjármálahrun á vakt Sjálfstæðisflokksins en það var unnið úr fjármálahruninu á vakt Sjálfstæðisflokksins."

En svo er maður hættur afskiptum af stjórnmálum og getur látið ýmislegt flakka og verður hver meta fyrir sig hvort Sjálfstæðisflokkurinn fær góða einkunn eða slaka. Er hann eða var hann? Ef hann er hvert er hann þá að fara? Gefum Vilhjálmi orðið með þökk fyrir skemmtilega og fróðlega grein:

,,Sá er þetta ritar hefur lokið afskiptum af stjórnmálum. Því getur hann látið ýmislegt frá sér fara eftir að hafa spurt sig áleitinna spurninga. Fyrsta spurningin er sú hvort hin „lýðræðislega“ aðferð prófkjöra hafi skilað sigurstranglegum framboðslistum? Horfandi á mál utan frá og spurt þá sem ekki eru innmúraðir, segja kjósendur: Þetta fólk höfðar ekki til mín! Þetta fólk hefur enga skírskotun til mín! Þetta fólk hefur orðið til í kosningamaskínunni inni í Sjálfstæðisflokknum! Engin skírskotun til almennra kjósenda! Það kann að vera að flokkurinn verði aftur að einhverju þegar búið er að taka allt frá honum! En maður sannprófar ekki það hvers virði maður er fyrr en þegar maður hefur látið hestinn sinn!"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"það var unnið úr fjármálahruninu á vakt Sjálfstæðisflokksins"

Nei

Guðmundur Ásgeirsson, 15.8.2021 kl. 16:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband