29.7.2021 | 08:45
Horft yfir sviðið af Kögunarhóli með Þorsteini
Af Kögunarhóli Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu (29.7.2021) er farið yfir orð og gerðir (sem reyndar fer minna fyrir) ríkisstjórnarinnar.
Orðin hafa verið mörg og misvísandi og það sama má segja um það sem gert hefur verið, en það sem ekki hefur skort, eru uppistönd og sýningar með tilheyrandi yfirlýsingum, svo ekki sé nú gleymt frægri flugferð austur á Egilstaði.
Þorsteinn bendir á nokkur atriði í atburðarásinni sem vert er að hugleiða og minnir á að á föstudag í síðustu viku sendi ríkisstjórnin frá sér eftirarandi skilaboð:
,,1. Að ráði sóttvarnalæknis tilkynnti hún nýjar sóttvarnaaðgerðir mánuði eftir að lýst var yfir sigri á kórónuveirunni og að Ísland stæði fremst í heiminum.
2. Fyrir miðjan ágúst yrði hún tilbúin með plan til að eyða allri óvissu og með framtíðarsýn um það hvernig við vildum hafa bólusett Ísland.
3. Heilbrigðisráðherra sagði að ekki mætti eyðileggja samstöðu þjóðarinnar með pólitískri umræðu.
Nýmælið í þessu er fyrirheit um stóra planið með framtíðarsýn til að eyða allri óvissu eftir tvær vikur."
Í kafla greinarinnar sem ber yfirskriftina ,,Óvissuvandinn" fer Þorsteinn yfir samstöðuleysið sem blasað hefur við, þ.e. að Sjálfstæðisflokkurinn segir eitt en Vinstri grænir annað og svo vitum við að Framsóknarflokkurinn dinglar með óviss, reikull og haltur. Þorsteinn notar ekki slík orð en gefum honum orðið:
,,Helsti pólitíski óvissuvandinn hefur frá byrjun faraldursins falist í því að stærsti stjórnarflokkurinn hefur sagt eitt við kjósendur en samþykkt annað við ríkisstjórnarborðið. Fyrst voru það óbreyttir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem töluðu gegn tillögum sóttvarnalæknis. Þeir töluðu einnig gegn því að Ísland tryggði sér bóluefni á grundvelli aðildar að innri markaði Evrópusambandsins.
Þegar að því kom að taka þurfti afstöðu til nýrra aðgerða, mánuði eftir að ríkisstjórnin hafði lýst yfir fullum sigri, sagði dómsmálaráðherra að þær væru óþarfar, en flokkurinn myndi samt samþykkja þær. Það er já, já og nei, nei pólitík af þessu tagi sem veldur óvissu og grefur undan trausti á þeim ákvörðunum, sem teknar eru. Og hún gerir að engu þá takmörkuðu möguleika á fyrirsjáanleika, sem atvinnulífið þarfnast. Hætt er við að ný skýrsla um framtíðarsýn komi að litlu haldi meðan þessi pólitík er jafn áhrifarík og raun ber vitni."
Í kafla greinarinnar sem höfundur kallar ,,Andrými" tínir hann til nokkur atriði máli sínu til stuðnings:
,,Á fimmtudagsmorgni fyrir réttri viku sagði forsætisráðherra í þessu blaði [Fréttablaðinu] að „ekki væri hægt að draga sömu aðgerðir upp úr poka.“ Hún bætti við að ríkisstjórnin og vísindamenn yrðu að fá andrými til að meta stöðuna.
Forsætisráðherra skýrði nauðsyn á andrými með þeirri hæversku athugasemd að það fylgdi því að vera fremstur í röðinni að enginn annar hefði forskrift fyrir okkur til að fara eftir.
Sóttvarnalæknir sá hlutina í öðru ljósi. Síðar þennan sama dag sagði hann: „Við vitum alveg hvað það er sem þarf að gera.“
Og til að strá salti í sárið bætti hann við: „Það er eins og menn á Íslandi telji að það sé nóg að hefta útbreiðslu hér og þá sé Covid lokið. Það er bara ekki þannig.“
Daginn eftir dró forsætisráðherra sömu gömlu aðgerðirnar upp úr poka austur á Egilsstöðum."
Þorsteinn dregur ekki úr því að gott sé að koma með ,,plan" og í lok greinar sinnar stillir hann upp slíku plani í fimm liðum og dregur þar með ríkisstjórnina að landi í trausti þess að hún tolli á flekanum og planið er svona:
,,1. Eyða þarf þeirri óvissu, sem já, já og nei, nei pólitíkin veldur atvinnulífi og skólum.
2. Gera þarf Landspítalanum kleift að takast á við faraldur af þessu tagi til lengri tíma í stað viðvarandi neyðarástands.
3. Gefa þarf öllu atvinnulífinu skýra framtíðarsýn á möguleika til aukinnar verðmætasköpunar með stöðugum gjaldmiðli og án gjaldeyrishafta.
4. Loka þarf fimmtíu milljarða króna gati í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.
5. Svara þarf betur hvernig á að ná markmiðum í loftslagsmálum."
Væri allt sem það ætti að vera, færi ríkisstjórnin að þessum ráðum, en oft er það svo að ráðlausu og ráðalausu fólki lætur ekki vel að fara að ráðum annarra.
Því gerum við ráð fyrir að áfram verði vaðinn elgur, að Sjálfstæðisflokkurinn horfi í vestur, suður, austur og norður, þ.e. rangsælis, meðan Vinstri græn horfa upp og niður og Framsóknarflokkurinn ýmist til hægri eða vinstri.
Þjóðin fylgist síðan furðu lostin með ráðaleysinu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.