17.3.2021 | 09:18
Búnaðarstofa - frjáls eða háð
Guðni Ágústsson ritar grein á vef Bændablaðsins og gerir að umfjöllunarefni ,,frelsi" Búnaðarstofu, stofnunar sem nýlega var flutt til Landbúnaðarráðuneytisins.
Guðni kemst að þeirri niðurstöðu að illa sé komið fyrir stofnuninni og það verr en þegar hún hvíldi í faðmi Bændasamtakanna.
Forveri þessarar stofnunar var Framleiðsluráð landbúnaðarins sem var í innilegu faðmlagi við forvera Bændasamtaka Íslands, þ.e. þess sem þá hét Stéttasambands bænda.
Það þótti ekki gott fyrirkomulag og var búin til ný stofnun sem fékk nafnið Búnaðarstofa og henni síðan komið fyrir í náinu og traustu sambandi við Bændasamtök Íslands, eftir að hafa verið um tíma í hornstofu hjá Matvælastofnun.
Ég skil það sem Guðni setur fram í grein sinni á þann veg að hann vilji fara aftur til fyrri stöðu og koma stofnuninni í faðm Bændasamtakanna. Guðni segir í grein sinni: ,,Í dag heyrir Búnaðarstofa, sem sjálfstæð starfseining, sögunni til því hún finnst hvergi innan ráðuneytis landbúnaðar."
Sé þetta rétt, er illa farið fyrir því sem lítið var!
Undirritaður man vel eftir því sem einu sinni var Framleiðsluráð landbúnaðarins og saknar þess ekki, hefur lítið spurt af þessu skrifstofufyrirbæri síðan og telur að það gott.
Samkvæmt því sem segir í grein Guðna voru: ,,Fyrirmæli Alþingis [voru] kýrskýr: ,,Atvinnuveganefnd Alþingis beinir því til ráðuneytisins í ljósi mikilvægi og umfangs þeirra verkefna sem Búnaðarstofa sinnir í dag við framkvæmd búvörusamninga, hagtölusöfnun og þróun tölvukerfa að ráðuneytið afmarki með skýrum hætti verkefni Búnaðarstofu innan ráðuneytisins."
Um er að ræða samkvæmt þessu hina merkustu stofnun og að það skuli hafaa farið framhjá ritara skrifast líkast til á það, að hann hefur ekki stundað búrekstur sem er innan ,,búvörusamninga" og satt að segja saknar hann þess ekki; efast hins vegar um að fullyrðingar Atvinnuveganefndar Alþingis um ,,mikilvægi og umfang stofunnar" sé mikið meira en þeirrar stofu sem hann situr í við að rita þessi orð.
Eftir því sem Guðni segir er hlutverk ,,stofunnar" ,,að halda utan um verkefni í tengslum við búvörusamninga ríkis og bænda".
Bændasamtökin gera búvörusamninga við ríkið fyrir valdar búgreinar, greinar sem samtökin bera sérstaklega fyrir brjósti og stafar sú umhyggja vafalaust af þeirri staðreynd að Bændasamtök Íslands hafa alla tíð verið samtök sauðfjárbænda að mestu leyti, þó þau hafi horft til kúabúskaparins líka með svona um það bil þriðja til fjórða hverju augnatilliti.
Aðrar búgreinar hafa samtökin ekki talið sér koma við, utan ef þeim hefur fundist að amast þyrfti við þeim.
Telji bændur nauðsynlegt að reka stofnun til að fylgjast með framkvæmd búvörusamninga er eðlilegast að þeir haldi slíkri starfsemi úti á eigin vegum og að starfið sé síðan kostað af þeim búgreinum sem eru undir samningunum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:16 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.