Grein Ernu Bjarnadóttur o.fl.

Erna Bjarnadóttir hagfræðingur skrifaði grein í Fréttablaðið 27. nóvember sl.

Í upphafi greinar sinnar minnir Erna á að ,,með gildistöku EES samningsins þann 1. janúar 1994 öðluðust EFTA ríkin þrjú, Noregur, Ísland og Liechtenstein aðgang að innri markaði ESB. Til að njóta þessa aðgangs þurfa bæði aðildarríki ESB og EFTA ríkin að innleiða regluverk ESB, acquis communautaire, sem tengist svokölluðu fjórfrelsi." 

Getur þess síðan að undartekningar á þessu séu nokkrar og að ein þeirra sé ,,sameiginleg landbúnaðarstefna ESB" og að ,,viðskiptasamninga Íslands og ESB um landbúnaðarvörur" byggja á ákvæðum EES samningsins.

Minnir síðan á að ,,landbúnaðarstefna ESB [sé] ekki hluti EES samningsins" og að ,,þar sem EES samningurinn tekur ekki til sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar verður EFTA ríkjunum ekki gert að innleiða regluverk ESB á því sviði. Um viðskipti með landbúnaðarafurðir sem og unnar afurðir er því samið sérstaklega í tvíhliða samningum milli Íslands og Noregs annars vegar og ESB hins vegar."

Og heldur áfram að skýra málið:

,,Með EES-samningnum voru lögð drög að auknum viðskiptum með landbúnaðarafurðir og unnin matvæli með tvennum hætti – annars vegar með 19. gr. EES samningsins og hins vegar með bókun 3 við samninginn. Í framkvæmd hefur 19. gr. EES samningsins verið talin taka til allra óunninna landbúnaðarvara, s.s. mjólkur, osta, en undir bókun 3 falla vörur almennt teljast unnar landbúnaðarvörur, sbr. b-lið 3. mgr. 8. gr. EES samningsins."

Og síðan:

,,Á grundvelli þessara ákvæða hafa Ísland og ESB gert samninga um viðskipti með landbúnaðarvörur, fyrst 2007 og síðan aftur 2015 með gildistöku 2018. [...] Mikilvægt er að halda því til haga að á grundvelli ofangreindra ákvæða í EES samningnum gerir ESB sérsamninga við Ísland og Noreg hvort í sínu lagi. Það er því áhugavert að skoða hvernig Noregur hefur samið við ESB um þessi atriði í samanburði við Ísland."

,,Þann 14. nóvember 2019 áttu fulltrúar ESB og Noregs fund um unnar landbúnaðarvörur sem falla m.a. undir bókun 3. Þar kynnti ESB þá ítrekuðu ósk sína að taka upp viðræður um tolla á vörur sem falla undir hana, með það markmið að auka viðskipti sem væri í anda þess að sameina markaði EES svæðisins. Norska sendinefndin hafnaði þessari beiðni og rökstuddi synjun sína með vísan til þess að¦tilgangur endurskoðunar á bókun 3 sé ekki aukið frelsi í viðskiptum heldur frekar að jafna stöðu aðila...“. Norska sendinefndin lýsti því þeirri afstöðu sinni að halda bókun 3 óbreyttri og vildi ekki taka á sig neinar skuldbindingar í átt til aukins frjálsræðis í viðskiptum með unnar landbúnaðarvörur (lesist tollalækkanir)."

 

Í framhaldinu varpar hún fram þeirri spurningu hvers vegna íslensk stjórnvöld gangi lengra en þau norsku og nú skulum við lesa orðrétt talsverðan kafla úr greininni:

,,Á fundinum var einnig rætt um þá málaleitan ESB að Noregur myndu gera samning um gagnkvæma verndun afurðaheita, svipað og Ísland gerði árið 2015, og hefur m.a. leitt til sérstaka tollkvóta fyrir osta. Fram kom að fulltrúar ESB hvöttu norsku sendinefndina til að íhuga að taka aftur upp viðræður um viðurkenningu svo kallaðra landfræðilegra merkinga. Norska sendinefndin útskýrði að hún myndi ráðfæra sig við viðeigandi yfirvöld um möguleikann á að hefja þessar viðræður að nýju.“

Af þessu er ljóst að löndin tvö, Ísland og Noregur, hafa túlkað og unnið með misjöfnum hætti með 19. gr. EES samningsins og bókun 3 við samninginn. Er ljóst að norsk stjórnvöld hafa ekki gengið jafnlangt og íslensk stjórnvöld í samningum við ESB."

Og síðan:

,,Forsvarsmenn samtaka bænda hafa ítrekað bent á hve gríðarleg breyting felst í samningnum við ESB frá árinu 2015. Ofan á tollalækkanir á kjöti og tollkvóta fyrir kjöt og osta, bættust stórauknir kvótar í báðum þessum afurðum. Þannig nema tollkvótar fyrir nautakjöt yfir 20% af heildarmarkaði. Á sama tíma hefur Noregur ekki samið um neinn slíkan kvóta á grundvelli 19. gr. Fyrir svínakjöt er tollkvóti ESB til Íslands t.d. 700 tonn en 600 tonn í Noregi sem þó er með 14,6 faldan íbúafjölda Íslands, 5,3 milljónir."

Síðar í grein sinni minnir Erna á að utanríkisráðherra hafi bent á að augljóst sé að samninginn milli Íslands og ESB þurfi að endurskoða af tveimur ástæðum: Bretland sé gegnið úr sambandinu og að ferðamannastraumurinn hafi stöðvast. Það síðarnefnda heldur líklegast ekki vatni nema að menn reikni með varanlegu COVIT-19 ástandi, en hið fyrra er augljós staðreynd.

Grein sinni lýkur Erna á því að benda á að Íslendingar geta framleitt sínar dýraafurðir sjálfir, nema að flytja þurfi inn síður af svínum ef ferðamannastraumurinn verði sem áður, til að fullnægja þörfinni fyrir beikon á morgunverðarborðin. Þá bendir hún á að rétt sé að nýta gæði landsins til að framleiða þau matvæli sem þjóðin þurfi. 

Síðustu orð greinarinnar eru:

,,Það sem sjaldnar er haldið á lofti í þessu sambandi er að framleiðsla hér á landi fer fram með margfalt minni lyfja- og varnarefnanotkun en víðast í þeim löndum sem innfluttar búvörur koma frá. Með því að framleiða þessar afurðir sjálf, sem við getum vel, minnkum við bæði hættu á mengun af þessum völdum og drögum úr álagi á lífríki þessara landa sem notkun þessara efna veldur þar."

Undirritaður vill minna á þessu til viðbótar, að í samningunum sem þáverandi landbúnaðarráðherra talaði fyrir árið 2015, var verið að semja um, auk þess sem að ofan greinir, að skipta á heimildum fyrir íslenskt lambakjöt til ESB gegn því að frá ESB fengi að flytja inn afurðir svína, alifugla og nautgripa til Íslands.

Það var sem sagt verið að fórna hagsmunum heildarinnar fyrir hagsmuni ríkisreknu búgreinarinnar og fyrir því var talað og þrumað yfir mönnum að þeir yrðu bara að ,standa sig'! 

Niðurstaðan varð að þeir sem átti að fórna fyrir ríkisreksturinn í landbúnaðinum hafa reynt sem þeir geta að ,standa sig' í samkeppninni við ríkisreksturinn, en hin ríkisrekna kindakjötsframleiðsla er í hvínandi vandræðum.

Vandræðum sem eru svo mikil of margþætt að um mætti skrifa aðra og mikið lengri grein!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband