Um tollvernd landbúnaðarvara

Bændasamtök Íslands, Landssambands kúabænda, Svínaræktarfélag Íslands, Félag kjúklingabænda Landssamtök sauðfjárbænda, Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði og Landssamtök sláturleyfishafa gera alvarlegar athugasemdir við skýrslu Atvinnuvegaráðuneytisins ,,Þróun tollverndar landbúnaðarvörur“ sem birt var í október síðastliðnum.

Athygli vekur að Bændasamtökin áttu sinn fulltrúa í starfshópnum sem skýrsluna tók saman, en í honum voru eftirfarandi: Daði Már Kristófersson, skipaður formaður, Tryggvi Másson, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins, Sigurður Eyþórsson, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands, Bryndís Eiríksdóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Arnar Freyr Einarsson, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Athugasemdirnar sem aðildarfélög Bændasamtakanna og samtökin sjálf gera við skýrsluna eru margvíslegar og satt að segja of margar til að tíundaðar verði í stuttum greinarstúfi, þó skal reynt að drepa á það helsta.

Ekki er annað að sjá en félögunum takist að sína framá að framleiðsla á nauta, svína og alifuglakjöti hefur gefið eftir fyrir innflutningi. Þá færa þau fyrir því sannfærandi rök að mjólkurframleiðslan sé í raun umfram innanlandsþarfir og segir þar: ,, Rétt er að vekja athygli á því að mjólk og mjólkurafurðir hafa þá sérstöðu samanborið t.d. við kjöt að hægt er að „breyta einni afurð í aðra“ ef svo má að orði komast. Þannig má nota undanrennuduft til að framleiða aðrar vörur t.d. osta, skyr o.s.frv. Duftið er fyrst og fremst form til að geyma mjólkurprótein.“

Litlu síðar segir: ,,Það sætir furðu að ekki sé hægt að birta í skýrslu eins og þessari, samantekt um hve mikið magn var flutt inn á hverju ári sem slíkar opnanir (opnir tollkvótar) voru gerðar fyrir nauta- og svínakjöt. Öll skilyrði til slíks eiga að vera til staðar, þ.e. hvaða tímabil er um að ræða, hvaða tollskrárnúmer og í hvaða magni og verðmætum tollafgreitt var samkvæmt þessum skilmálum. Ekki er hægt að daga ályktanir um þessa þróun ef ekki er hægt að greina á milli þess á hvaða kjörum og í hvaða magni vörur eru fluttar inn á tilteknu tímabili. Þarna getur verið um að ræða innflutning á WTO-kvóta, ESB-kvóta eða opnum tollkvótum svo nokkuð sé nefnt.“

Þar sem farið er yfir áhrif tollasamningsins sem gerður var við ESB segir: ,, Forsvarsmenn bænda hafa á undanförnum árum ítrekað gagnrýnt stórfellda aukningu tollfrjálsra kvóta fyrir landbúnaðarvörur frá ESB með samningnum sem gerður var 2015 og tók gildi 2018. Í þessu sambandi er rétt að víkja að upplýsingum sem komu fram á fundi ANR og UTN með Bændasamtökum Íslands o.fl. þann 30. okt. 2020. Samkvæmt fundarpunktum, samanteknum af starfsmönnum UTN, sem sendir voru fundarmönnum þann 11.11. síðastliðinn segir m.a.: „Eftirfarandi spurningum var beint til fulltrúa stjórnvalda á fundinum: Var framkvæmt heildstætt mat á áhrifum samningsins á atvinnulífið við gerð hans? Svar: Það virðist ekki hafa verið gert á sínum tíma.“

Með öðrum orðum, sú aukning sem samið var um á tollfrjálsum kvótum var gerð án þess að nein greining stæði þar að baki.

Greining stæði þar að baki!

Rétt er að leggja áherslu á þau orð, því þegar samningurinn var gerður var svo sannarlega ekki haft fyrir því að leggja mat á hver áhrif hans á íslenskan landbúnað yrðu.

Það var vaðið út í ána án þess að hafa fyrir því að kanna straumhraðann og dýpið.

Réttast væri kannski að segja að öslað hafi verið útí hugsunarlaust og með bundið fyrir augun. Treyst var á og því trúað, að tjónið sem yrði, myndi bætast upp með hinum gjöfulu kindakjötsmörkuðum Evrópusambandsins.

Mörkuðum sem eru einskis virði fyrir þá vöru, þó ekki væri nema vegna þess hve íslenskt kindakjöt er dýrt í framleiðslu og það áður en kemur að því að gera afurðina að seljanlegri vöru.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Ingimundur

Þegar þáverandi landbúnaðarráðherra gerði þennan örlagaríka samning við esb, lá svo á að jafnvel samráðherrar hans í ríkisstjórn fengu ekki að vita af málinu fyrr en skaðinn var skeður. Að sjálfsögðu náðist ekki að gera neina greiningu á áhrifum þessa samnings og því síður var haft samráð við bændur um hann.

Það var svo eftir undirritun hans sem ráðherra reynir að afla samningnum fylgi innan bændasamtakanna. Auðvitað var nautgripabændum og svína og kjúklingabændum haldið utan þeirrar kynningar, en reynt að höfða til sauðfjárbænda. Illa gekk að fá þeirra samþykki, enda vita menn sem er að innflutningur á hvaða kjöti sem er dregur úr neyslu lambakjöts. Fulltrúar sauðfjárbænda bitu þó sumir hverjir á öngul ráðherra, en heilt yfir voru sauðfjárbændur jafn afhuga þessum samningi og nautgripa, kjúklinga og svínabændur.

Það er helvíti hart, þegar maður vill fá sér góða svínasteik, að þurf að grafa í frystikistum búða til að finna þar íslenskt kjöt!

Gunnar Heiðarsson, 23.11.2020 kl. 23:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband