31.10.2020 | 09:05
Brostinn tollasamningur?
Ágúst Guðjónsson kúabóndi og stjórnarformaður Auðhumlu svf. ritar grein í Morgunblaðið í dag (31.10.2020) í tilefni af grein eftir Ólaf Stephensen.Greinin ber yfirskriftina ,, Já forsendur tollasamnings við ESB eru brostnar.
Ólafur skrifaði grein á dögunum með svipaðri yfirskrift, nema að hann spurði hvort forsendurnar væru brostnar.
Mín skoðun er að ,,forsendur fyrir umræddum tollasamningi hafi engar verið þegar tollasamningurinn var gerður og það sem aldrei hefur verið til geti ekki ,,brostið.
Samningurinn var ekki gerður kúabændum til hagsbóta og hann var þaðan af síður gerður mjólkuriðnaðinum til hagsbóta. Hann var ekki heldur gerður fyrir alifugla og svínabændur.
Umræddur samningur var gerður fyrir sauðfjárbændur og íslenska ríkið kostunaraðila þeirrar búgreinar og hugsanlega að einhverju örlitlu leyti með neytendur í huga, en líklegra er þó að þar hafi frekar verið um ,,gulrót að ræða en velvild.
Forsendulaus samningur getur ekki brostið eins og áður sagði og afleiðingar þessa samkomulags íslenskra stjórnvalda við ESB eru að koma af þunga niður á þeim búgreinum sem hann bitnar á og rétt er að taka fram að frá fyrsta degi mátti öllum vera ljóst að svo myndi verða.
Sé eftirspurn eftir vörum, þær ekki fáanlegar, eða ofurdýrar, hefur þeim verið smyglað milli landa frá ómunatíð.
Matvörum hefur verið smyglað til Íslands svo lengi sem undirritaður man eftir og eitt dæmi veit hann um, þar sem matvöru frá Íslandi var smyglað til landsins aftur eftir að hún hafði verið seld úr landi. Það var eftirspurn eftir vörunni og því fór sem fór!
Samningurinn sem Ólafur og Guðjón velta fyrir sér hvort að sé brostinn, var gerður í því augnamiði að opna markað fyrir kindakjöt í ESB- löndunum.
Sá markaður var ekki til og hefur ekki verið til áratugum saman og ef svo færi að þjóðum Evrópusambandsins myndi vanta kindakjöt eiga þær ýmsa vænlegri kosti til að nálgast þá matvöru.
Gæði og verð skipta máli í slíkum viðskiptum og það er verðið sem ræður úrslitum varðandi íslenska kindakjötið. Það er mun ódýrara að framleiða kindakjöt í Ástralíu og Nýja Sjálandi en á Íslandi og því kaupa menn það þaðan nema annað komi til.
Til að hægt sé að selja íslenskt kindakjöt til ESB- landanna þarf íslenska ríkið að greiða umtalsverða fjármuni með vörunni.
Allar hugmyndir um að hagstætt sé að framleiða kindakjöt á Íslandi og selja í eðlilegum viðskiptum til annarra landa eru byggðar á sandi.
Að reynt sé að flytja vöru framhjá tolli ætti ekki að koma á óvart, en það var óþarft og vanhugsað að opna smugu fyrir slík viðskipti og byggja á fölskum forsendum.
Það var landbúnaðarráðherrann sem sat árið 2015 sem brást og ef til vill má segja að hann hafi brostið víðsýni þegar hann gerði þann ólukkusamning sem um er rætt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.