24.10.2020 | 06:27
Reykjavíkurhöfn.
Eitt af því fyrsta sem ég man eftir að hafa gert mér til skemmtunar eftir að ég flutti til Reykjavíkur árið 1958 var að fara niður að höfn og skoða skipin. Forvitnilegt var fyrir níu ára gutta að fylgjast með athafnalífinu, uppskipun úr stórum skipum og annað sem því fylgdi.
Þar komst ég í félagsskap við aðra stráka sem sátu á bryggjuköntunum og fór að dorga með þeim og þá veiddi maður fiska, sem tilraun var gerð til að færa ömmu til matreiðslu. Skemmst er frá því að segja, að fisk sem veiddur var af bryggjukantinum á móts við miðbæ Reykjavíkur vildi hún ekki nota til matreiðslu og marhnútar voru sagðir óætir og fiskur veiddur á þessum stað var ekki talinn heppilegur til nota á veitingasölu!
Nokkrum árum fyrr en þetta fiskirí átti stað, er önnur minning bundin við höfnina er ég ásamt ömmu og afa, stóð og beið eftir móðir mín stigi á land eftir að Gullfoss kæmi og legðist að bryggju. Köld minning vegna þess hve kalt var þann dag og einnig hins, að matrósarföt sem þá voru í tísku á litla drengi, voru frekar óheppileg sem skjólflíkur. Svo fór sem betur fer, að afi hafði upp á kaffistofu eða mötuneyti, sem hægt var að fá að setjast inn í meðan beðið var eftir skipinu.
Seinna eftir að við vorum flutt til Reykjavíkur frá Seltjarnarnesi, var gaman að sniglast niður við höfn og fylgjast með atvinnulífinu og ekki síður á sunnudögum þegar afi átti frí frá vinnu sinni, að rölta með honum og skoða skipin og trillurnar. Og ekki síður að heimsækja hann í Slippinn, þegar hann ásamt öðrum mönnum frá Vélsmiðjunni Héðni var að vinna við að lagfæra vélar og tæki í skipum sem tekin höfðu verið þar upp til að sinna viðhaldi þeirra. Og eitt sinn var okkur nokkrum krökkum boðið með í reynslusiglingu á togara sem verið hafði í ,,klössun". Siglt var út á Faxaflóann og þótti okkur krökkunum það mikið ævintýri; vitandi að ekki væru það nú ekki allir á okkar aldri sem fengju að upplifa slíkt.
Einu sinni var ég hætt kominn á þessum árum í þvælingi mínum við höfnina. Ekki vegna þess að ég dytti í sjóinn eða eitthvað nálægt því. Það var annað sem olli og kjánaskapur í bland við glannaskap réði för. Ég hafði eignast reiðhjól og komist upp á lag með að hjóla og var búinn að finna það út að því meira gaman væri að hjóla, sem hjólað væri hraðar.
Þegar það gerðist sem nú verður sagt frá var Ríkisskip með dráttartæki til að draga vöruvagna sem notaðir voru við að flytja vörur að og frá strandferðaskipunum. Þessi dráttartæki voru með stálplötu að framan til að verja þau hnjaski.
Það skipti engum togum að ég kom sem oftar hjólandi eftir Tryggvagötunni til austurs þegar eitt slíkt tæki kom akandi í vestur og þar sem ég hjólaði eins hratt og ég gat og horfði meira til jarðar en á það sem framundan var, þá fór það svo að ég hjólaði beint á fyrrnefnda varnarplötu tækisins.
Þegar felmtri slegnir menn komu aðvífandi til að hreinsa upp klessuna sem áður hafði verið strákgutti, var hann rankaður við og hafði mestar áhyggjur af beygluðu gjörðinni og gafflinum á hjólinu.
Á þessum tíma þóttu DBS reiðhjól góð hjól og ég hafði fengið hjólið í afmælisgjöf frá ömmu og afa og þótti það mikill kjörgripur. Skemmst er að segja frá því, að bæði hjól og strákur urðu jafngóð eftir lítils háttar lagfæringar og sá síðarnefndi var reynslunni ríkari.
Af þessu sést að höfnin laðaði okkur strákana til sín og seinna kom að því að við áttum sumir erindi niður að höfn vegna annars en leika.
Á seinni hluta sjöunda áratugar síðustu aldar, var kreppa í íslensku atvinnulífi. Þá þurfti að leita að vinnu sem oftar en ekki, var enga að hafa og þannig var það hjá mér þar til að Skipadeild SÍS réð mig sem fjórða vélstjóra á flutningaskipið Arnarfell, en ég hafði þá lokið 1. stigi í Vélskóla Íslands. Og segja má að það hafi orðið upphaf þess að ég átti aftur og oftar erindi ,,niður að höfn".
Sundahöfn var ekki komin til sögunnar á þessum tíma og höfnin var niður af miðbænum líkt og áður og stóru flutningaskipin lögðust að þar sem ,,gamla höfnin" er og hefur verið.
Síðar breyttist það og starfsemi Eimskipa og Samskipa var komið fyrir þar sem Sundahöfn er í dag og það svæði hefur verið að vaxa og dafna æ síðan og þar erum við komin að því sem varð til þess að þessar línur rötuðu á blað eftir að ég hafði rekist á skemmtilega og fróðlega frétt í Morgunblaðinu 15.10.2020.
Það er sagt frá því í blaðinu að til standi að stækka og dýpka Sundahöfn.
Eins og sjá má á myndunum sem fylgja frétt Morgunblaðsins um málið, er um miklar framkvæmdir að ræða. Stækka á viðlegukanta og dýpka Viðeyjarsundið.
Það er mikil atvinnustarfsemi sem fylgir því að taka á móti og skipa út vörum til og frá öðrum löndum. Hafnir með tilheyrandi skipaumferð eru við margar borgir og ef við hugsum til höfuðborga, er ef til vill nærtækast að rifja upp og muna eftir, að gamla höfuðborgin okkar er Kaupmannahöfn.
Við ættum að fagna slíkri starfsemi og ekki tala um hana með niðrandi hætti eins og stundum er gert. Innflutnings og útflutnings hafnir eru lífæðar hverrar þjóðar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.