14.10.2020 | 07:22
Ráðherra á hálum ís?
Á sama deginum birtast okkur tvær greinar, önnur úr Morgunblaðinu 10.10. 2020 eftir Sigurð Inga Jóhannsson samgönguráðherra og formann Framsóknarflokksins og fyrrverandi landbúnaðarráðherra.
Það hlýtur að boða eitthvað þegar núverandi samgönguráðherra tekur sig til á opinberum vettvangi og tekur núverandi landbúnaðarráðherra í kennslustund um hvernig skuli fara með landbúnaðarmálin. Við vitum ekki með vissu hvað um er að vera innan ríkisstjórnarinnar, en hefði Kristján Þór Júlíusson sent frá sér svona tilskrif um samgöngumálin er ekki víst að framsóknarmönnum hefði þótt það viðeigandi.Við lesum greinina og byrjum á fyrirsögninni, Landbúnaður hvað er til ráða? og áhuginn vaknar.
Ágallar og ávinningur
Hin greinin er eftir Vilhjálm Bjarnason og birtist í sama blaði fyrir nákvæmlega ári undir yfirskriftinni Samningur um EES, ávinningur og ágallar. Við lesum grein Vilhjálms og verðum hugsi, berum hana saman við þá fyrrnefndu, sem boðar stórtíðindi, vegna þess sem þar segir, þ.e.: Það er [...] til skoðunar innan ríkisstjórnarinnar að segja þessum ESB-tollasamningi upp. Munum að sá samningur tengist þeim fyrrnefnda og að núverandi landbúnaðarráðherra beið það hlutverk að hnýta óhnýtta hnúta varðandi þann samning þegar hann tók við embætti.
Sameining afurðastöðva og örsláturhús
Sigurður vill efla, styrkja og sameina afurðastöðvar landbúnaðarins í kjötvinnslu og ætla má að um sé að ræða sauðfjársláturhúsin. Það eru a.m.k. þau sem verið hafa til umræðu, enda staða þeirra slæm sem von er og venjulegt, enda taka þau til slátrunar og vinnslu mun meira magn en markaður er fyrir. Sigurður var landbúnaðarráðherra og bar sem slíkur ábyrgð á gerð tollasamningsins sem hann er að fjalla um þess sem ríkisstjórnin er að hugsa um að segja upp. Þann samning gerði hann í þeim tilgangi að opna markað fyrir kindakjöt inn á ESB-markaðssvæðið. Þau eru mörg sem um aldir hafa látið sig dreyma um að stunda mætti hagkvæm viðskipti með íslenskt kindakjöt til annarra landa. Sumir draumar rætast, aðrir ekki, og síst rætast draumar um hagkvæm viðskipti af þessu tagi þegar þjóðir Evrópu hafa komið sér saman um að halda frið hver við aðra, standa saman, huga að sameiginlegum hagsmunum og þar á meðal að framleiða mat til að fullnægja þörfum þegna sinna. Sigurður yljar okkur með þeirri frumlegu hugmynd að örsláturhús og heimaslátrun sauðfjár muni bæta hag bænda og þá væntanlega líka hag núverandi sláturhúsa, sem, ef draumarnir rætast til fulls, geta þá hætt starfsemi nema svo ólíklega vilji til að lifni yfir hinum erlendu kindakjötsmörkuðum í réttu hlutfalli við vöxt heima- og örslátrunar. Bjartur í Sumarhúsum skar sitt fé, át það sjálfur með sínum og hristi sig og byrsti gegn mótlætinu; trúði á sauðkindina og gaf sig hvergi, en við munum hvernig það endaði.
EES-samningurinn
Vilhjálmur fer í sinni grein yfir EES-samninginn og greinin er í fullu gildi þótt ársgömul sé. Hann minnir á hverju samningurinn hafi skilað fyrir þjóðina. Bendir á að skýrsla sem tekin var saman til að leggja mat á 25 ára samstarfið hafi sýnt fram á að kaupmáttur lágmarkslauna hafi vaxið um 149% og almenn launavísitala hækkað að raungildi um 90% frá 1990. Þá kemur fram að aðgengi að vinnumarkaði EES-svæðisins hafi batnað og íslensk starfsréttindi njóti fullra réttinda um allt svæðið. Einnig kemur fram í grein Vilhjálms að Ísland hafi tillögurétt, málfrelsi og áheyrnarrétt að Flugöryggisstofnun Evrópu og Lyfjastofnun Evrópu og bendir á að í þessum stofnunum fer fram meiri sérfræðivinna en lítið land ræður við.
Lausn vandans?
Samgönguráðherrann núverandi vill leysa vanda sauðfjárbænda með því að auka hann og sér þá lausn helsta að slátrun fari fram á býlum bænda. Vill stofna hag þjóðarinnar í hættu með því að ögra EES-samstarfinu. Við vorum mörg sem börðumst gegn samningnum við ESB varðandi viðskipti með kjöt og bentum á margt sem við hann væri að athuga, eins og t.d. að um væri að ræða þrjú hundruð þúsund manna þjóð á móti fimm hundruð milljónum. Misjafnar kröfur varðandi framleiðsluna, stuðningskerfi og fleira. Hafi verið hlustað, þá var það að engu haft. Öllu virtist vera fórnandi til að selja hið óviðjafnanlega íslenska kindakjöt, sem lítill sem enginn markaður reyndist vera fyrir, og stofnuð var útflutningsskrifstofa lambakjötsins, sem litlu skilar. Sigurður vill heimila afurðastöðvunum samstarf og vitnar m.a. í SÍS og fleiri. Þá vill hann auka það sem hann kallar frelsi bóndans til athafna og tengja hann betur markaðsstarfinu og til að ná því fram vill hann heimila örslátrun (?) og minni sláturhús með heimavinnslu á sauðfé og ungnautum. Þetta á að mati landbúnaðarráðherrans fyrrverandi að bæta ástandið og styrkja stærri vinnslustöðvarnar!
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13.10.2020.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.