Hótelvandi og annar vandi Bændasamtakanna.

Fréttir berast nú af því að Bændasamtökin leiti nýrra hluthafa að rekstrarfélagi Hótels Sögu.

Fyrir áratugum fengu þáverandi forystumenn Bændasamtakanna þá flugu í höfuðið, að nauðsynlegt, ómissandi og óhjákvæmilegt væri, að samtökin kæmu sér upp lúxushóteli. Vegna þess var síðan lagður ,,skattur" á bændur til að hægt væri að raungera þá sérkennilegu hugljómun og svo fór, að hótelið varð að veruleika og stendur nú sem kunnugt er við Hagatorg í Reykjavík.

Ekki vitum við um ástæður þess að bændaforystan komst að þeirri niðurstöðu að hún þyrfti á hóteli að halda. Líklega hefur skort aðstöðu fyrir starfsemi samtakanna og menn verið stórhuga og fundið það út, að þar sem lítið væri um hótel í Reykjavík, á þeim tíma sem um er að ræða, þá væri gott að koma einu slíku upp:

Hóteli til að gista á með veitingasölum til að næra sig og rými fyrir starfsemi samtakanna. Já, ekki vantaði stórhuginn!

Undirritaður man vel eftir, að engin ánægja var meðal bænda með þetta ráðslag og fannst þeim flestum, að þeir hefðu annað og þarfara að gera við þá peninga sem þeir hefðu milli handa en að byggja hótel í höfuðborginni. Og þó sagt sé ,,flestum", þá er það svo að ekki munum við eftir neinum sem sá ljósið í þessari draumsýn forystunnar. 

Nú er svo komið að fréttir berast af því að Bændasamtökin leiti nýrra hluthafa, því fyrirtækið stefni í þrot, hafi tapað hundruðum milljóna á síðasta ári, auk þess sem eigið fé sé auk þess neikvætt um hundruð milljóna króna.

Það hefur sem sagt ekki verið af miklu að taka!

Á síðunni bondi.is finnum við lítinn sögubút um Hótel Sögu og líka er hægt að sjá samantekt sem kölluð er ,,Hótel Saga í fimmtíu ár", þar kemur m.a. fram að húsið var tekið í notkun fyrir hótelrekstur 1962.

 

  • Stéttarsamband bænda var stofnað í september 1946.
  • 1. janúar 1995 sameinuðust Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélag Íslands í Bændasamtök Íslands.
  • Framleiðsluráð landbúnaðarins var stofnað 1947 og starfaði undir yfirstjórn Stéttarsambandsins, til 1995 að Bændasamtök Íslands voru stofnuð.
  • Bjargráðasjóður er sameign ríkisins og Bændasamtaka Íslands.

Niðurstaðan varð að byggt var glæsihótel, með aðstöðu til fundarhalda og aðra starfsemi Bændasamtakanna. 

Hótelið komst upp og var tekið í notkun og bændur gátu fengið þar gistingu með afslætti, ef þeir þá höfðu ekki í önnur hús að venda.

Og þó einn formaður búgreinafélags hafi lagt það í vana sinn að gista á ,,svítunni" sem kölluð var, fór ekki miklum sögum af því að almennir bændur gistu þar. Höfðu víst flestir annað og þarfara að gera við peningana sína á þeim tíma, en að eyða þeim í lúxus af því tagi.

Tímarnir hafa breyst sem betur fer og nú orðið, er það ekki óalgengt að bændafólk geti leyft sér að gista eina og eina nótt á hóteli ef nauðsyn krefur. Þau sem annað fólk leitar eftir gistingu, bera saman verð og gæði og staðsetningu miðað við erindi sitt og taka síðan ákvörðun samkvæmt því sem boðið er. 

Hóteleign Bændasamtakanna er því skekkja, sem gistiaðstaða fyrir bændafólk og er það eins nú og það var áður. (Reyndar er tæpast hægt að ætla mönnum að hugmyndin hafi verið að reka hótelið á forsendum slíkra viðskipta!)

Bændur geta nú orðið gist á hvaða hóteli sem þeir kjósa og Bændasamtökin geta eflaust fengið hagkvæmara, eða a.m.k. jafngott og hugsanlega ódýrara húsnæði fyrir starfsemi sína, en það sem nú er notast við.

Húsnæðismál eru satt að segja ekki það vandamál sem hæst ber hjá Bændasamtökum Íslands nú um stundir þrátt fyrir þessa stöðu í þeim málum.

Það er félagsuppbyggingin sem rís hærra á lista vandamálanna hjá samtökunum og á þeim vanda þarf að finna lausn hvað sem húsnæðismálunum líður. Þó menn hafi ekki séð fyrir hvernig landbúnaðarmálin myndu þróast á miðri síðustu öld, þá liggur fyrir hvernig þróunin er. Út frá þeirri stöðu verður að vinna og koma samtökunum út úr fortíðinni.

 


mbl.is Hótel Saga leitar nýrra hluthafa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband