10.5.2020 | 08:35
Hugleiðingar út frá grein Vilhjálms Bjarnasonar
Vilhjálmur Bjarnason stiklar um seinni tíma söguna í grein sinni í Morgunblaðinu (8.5.2020) og lýkur henni á orðunum:
,,Stjórnmálaflokkar sérhagsmunanna deyja þegar þeir hafa ekki gæði til úthlutunar. Stjórnmálaflokkar með leiðtoga sem hafa óljósar hugsjónir deyja líka. Er nokkrum of gott að vera fífl."
Komið er víða við, við erum minnt á nýbýlabyggðina mislukkuðu sem var gæluverkefni síns tíma og Vilhjálmur Bjarnason spyr:
,,Hver er árangurinn? Beingreiðslur og fátækt. Aðlögun sem aðeins hefur skilað eymd."
Og á þá augljóslega við þá kjánalegu landbúnaðarstefnu sem rekin hefur verið lengst af í landinu.
Stefnu sem gengið hefur út á það að bregða fæti fyrir fólk sem hugsaði út fyrir þröngt sniðinn stakkinn og bjó til klíkukerfi fáránleikans, þar sem klíkubræður komu saman og véluðu um hver fengi að lífa og hver fengi að falla.
Kerfi sem er smátt og smátt að molna niður skapendum sínum og viðhaldendum til smánar.
Upp hafa nefnilega risið menn og konur, sem með útsjónarsemi og dugnaði, hafa brotið niður gamla landbúnaðarbáknið, en aðrir hafa ýmist forðað sér eða liggja í valkesti spillingar klíkubræðranna sem senn verða sjálfir að gjalti sem ekki leynist í glóð.
Glóð sem aldrei var annað en hrævareldur þegar grannt var skoðað, en olli tjóni samt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.