Hakað í reit á þar til gerðu skjali.

2020-05-07 (2)

Umfjöllun um búfjárhald er á blaðsíðu 2 í Bændablaðinu (7.5.2020).

Í frétt sem ritstjóri blaðsins ritar varðandi fjölda búfjár í landinu, er komist að þeirri niðurstöðu, að sauðfé hafi fækkað um helming frá 1980 og trúlega er það rétt.

En sé sauðfjárhald umfram þarfir þjóðarinnar nú á tímum, svo sem auðvelt er að færa fram rök fyrir að sé, þá var það svo sannarlega líka svo fyrir 42 árum!

Einhverjir muna eftir ,,gulgræna" kjötinu sem var urðað vegna geymsluskemmda. Auk þess var á þeim tíma flutt út mikið magn með frystiskipum til annarra landa og selt á lágu verði.

Og enn er flutt út kindakjöt, þrátt fyrir helmings fækkun sauðfjárstofnsins og að þjóðinni hafi fjölgað mikið á þeim 42 árum sem liðin eru.

En aftur að umfjöllun Bændablaðsins, þar sem sagt er að ,,ásett sauðfé" sé tæpar 416.000 kindur.

Við vitum, að teknu tilliti til þess hve mikið er flutt úr landi fyrir lítið, að fjárstofninn er alltof stór. Sé tekið með í reikninginn, að búgreininni er haldið uppi með gríðarlegum framlögum úr ríkissjóði og að svo er að sjá, sem bændur telji sem ekki sé til staðar haglendi fyrir kindurnar, án þess að beita þeim á illa farið graslendi hálendisins, má ljóst vera að búgreinin er í vanda stödd.

Fjögur hundruð og sextán þúsundin umræddu eru, ásett lömb að hausti til viðhalds stofninum, fullorðnar kindur og  hrútar: eru sem sagt of stór stofn.

Gera má ráð fyrir að ef stofninn væri minni gætu þeir bændur sem eftir væru farið að fá laun fyrir vinnu sína með eðlilegri hætti. Offramleiðslan veldur nefnilega sífelldum verðþrýstingi til lækkunar, á afurðum greinarinnar.

2020-04-18 (2)Þegar rætt er um styrki verður að hafa þann fyrirvara á, að ólíklegt er að hægt sé að stunda búgreinina án ríkisstyrkja.

Borið saman við önnur dýr sem nýtt eru til kjötframleiðslu er sauðkindin óhagkvæm. Ekki síst sú íslenska vegna þess, að lömbunum er slátrað einungis um fjögurra mánaða gömlum vegna séríslenskra aðstæðna.

Í grein Bændablaðsins segir, að nautgripir séu tæp 81.000, þ.e. mjólkurkýr, holdakýr, kálfar og graðnaut.

Í lok umfjöllunarinnar setur höfundur eftirfarandi fyrirvara:

,,Tölur um svín sýna einungis gyltur og gelti, enda erfitt að henda reiður á fjölda grísa frá mánuði til mánaðar. Það sama á við um fjölda unga í alifuglaeldi. Í sauðfé er einungis verið að tala um vetrarfóðrað fé, ekki lömb sem fæðast að vori og er slátrað að hausti. Í loðdýraeldi er líka einungis verið að tala um fullorðin eldisdýr, högna og læður."

Samanburðurinn er sem sé ekki með öllu marktækur. Við vitum dálítið en alls ekki allt, um hver fjöldi þeirra húsdýra er, sem afurðirnar verða til af. Þ.e. alifuglakjöt, hrossakjöt, kindakjöt, nautakjöt og svínakjöt.

Fróðlegt væri að fá það reiknað út, af glöggum og óhlutdrægum aðilum, hvað hver grein leggur til, að teknu tilliti til stofnstærðar fullorðinna dýra.

(Óhlutdrægir aðilar til þeirra útreikninga verða vart fundnir í þeim samtökum sauðfjárbænda sem Bændasamtökin eru, og því þyrfti að leita annað hvað það varðar!)

Höfundur greinarinnar í Bændablaðinu hreytir ónotum í hrossabændur; segir umtalsverða skekkju í framtöldum hrossastofni þeirra og segir þá ,,hljóta sóma síns vegna" að laga þau mál.

Það er margur ,,sóminn" sem huga þarf að!

2020-04-27 (9)Hrossabændur stunda m.a. útflutning á afurðum sínum og gera það án fjárstuðnings úr ríkissjóði sem nokkru nemur.

Þeir fá ekki úr ríkissjóði:

Beingreiðslur, gæðagreiðslur, geymslugjöld, útflutningsstyrki, girðingarstyrki og styrki frá sveitarfélögum til að smala saman fénaðinum að hausti og er þá ekki allt talið.

Hrossabændur eru undir opinberu eftirliti varðandi skepnuhald sitt.

Það má hinsvegar efast um að svo sé um sauðfjárræktina. Það líður vart það árið að ekki berist fréttir af hirðuleysi og vetrarlöngum útigangi á heiðum uppi. Þar virðast reglur ekki virtar.

Þá ber þess að geta, að allir aðrir landeigendur verða að verjast ágangi sauðfjárins en ekki öfugt. Það er nefnilega ekki gert ráð fyrir, að umráðamenn sauðfjár haldi fénaði sínum innan girðinga og sjái til þess að hann valdi ekki óviðkomandi tjóni.

Og ekki nóg með það, engar reglur gilda um beitarhald og umsjón í haglendi, aðrar en fyrrnefndar gæðagreiðslur, sem í raun ganga út á það eitt að haka í réttan reit á þar til gerðu skjali!  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband