27.4.2020 | 14:25
Enn um Bændasamtökin.
Í gær ritaði ég pistil sem ég kallaði ,,Bændasamtök hverra". Ástæðan var að ég fór að fara yfir frétt á bls. 7 í Bændablaðinu frá 23.04.2020.
Þar er sagt frá því hvernig menn hafa komið sér saman um að hafa fyrirkomulag félagsgjalda samtakanna. Samtaka þar sem vægi atkvæða er ekki metið eftir umsvifum viðkomandi félagsmanna og/eða fyrirtækis.
Því er það að sá sem er með allt frá og með einni krónu í veltu, hefur jafnmikið vægi í samtökunum og sá sem er með 212 milljón krónur í veltu.
Varla þarf að orðlengja það að þau sem eru með veltu í rekstri sínum sem hleypur á hundruðum milljóna, hafa mun meiri hagsmuna að gæta en frístundabóndinn sem er í neðsta þrepi félagsgjaldanna sem er frá 0 til 4,9 milljónir króna.
Eins og fram hefur komið eru fjölmargir frístundabændur í þessu neðsta þrepi. Fólk sem er með nokkrar kindur sér til dundurs, ánægju og ekki síst hagsbóta. Fá jafnframt styrkjaflóruna sem við líði er í sauðfjárræktinni greidda frá ríkinu og neyta lambakjötsins væntanlega með margfalt meiri ánægju, en venjulegur neytandi sem kaupir kjöt sitt fullu verði út í búð. Fullt verð er reyndar ekki um að ræða eins og við vitum, því viðkomandi greiðir til viðbótar geymslugjald, ullartillegg, gæðatillegg og beingreiðslur, auk fjölmargra annarra sporsla sem of langt er upp að telja, með skattgreiðslum í ríkissjóð.
En aftur að félagskerfi bænda:
Á Búnaðarþingi kemur saman hópur manna. Skipun hópsins má sjá á meðfylgjandi mynd. (Þ.e.a.s. þeirri efstu!) Hvernig þeir eru valdir og fyrir hvað þeir standa. Eitt hlutverk þess hóps er að kjósa fimm fulltrúa í aðalstjórn Bændasamtakanna.
Þar sem ekkert hefur komið fram um að vægi atkvæða fari eftir greiddum félagsgjöldum, ræður á Búnaðarþingi væntanlega reglan: hver maður eitt atkvæði.
Samkvæmt þessu gæti komið upp sú staða að fimm menn sem kjörnir yrðu til stjórnar í Bændasamtökunum kæmu allir úr röðum tómstundabænda.
Það er í raun ekkert sem hindrar það, annað en hvernig valið er til Búnaðarþings og nú er rétt að fara aðeins yfir það:
Sé litið á vef Bændasamtakanna sést að skipun fulltrúa á Búnaðarþing fer í engu eftir vægi né umsvifum búgreina á markaði. Nær væri að segja, að fulltrúavalið sé í öfugu hlutfalli við vægi búgreina á markaði íslenskra landbúnaðarvara. Með þeirri undantekningu að örlítil tilraun virðist vera gerð til að rétta hlut kúabænda.
Tvær stærstu kjötgreinarnar á innlendum markaði (og sem vel að merkja eru ekki reknar með styrkjum úr ríkissjóði), kjúklingabændur og svínabændur eiga einn fulltrúa hvor grein.
Með öðrum orðum, fulltrúar þeirra bænda sem framleiða meirihlutann af því kjöti sem neytt er í landinu eiga 2 fulltrúa af 51 sem skipa Búnaðarþing!
Jafnmarga og Beint frá býli og Félag ungra bænda, svo dæmi sé tekið. en við getum svo hugleitt hvað félagar þeirra tveggja félaga séu að framleiða.
Af þessu má vera ljóst að stærstu framleiðendurnir í landbúnaðinum eiga hlutfallslega mjög fáa fulltrúa á Búnaðarþingi; þinginu sem síðan velur fulltrúa í stjórn Bændasamtakanna!
Af þessu sést að engan þarf að undra þótt hagsmunagæsla samtakanna hafi alla tíð verið fyrst og fremst fyrir fjölmennustu búgreinina sem jafnframt er ekki sú stærsta í neinu tilliti, þ.e. sauðfjárræktina og fátt bendir til að þar verði breyting á.
Steininn tekur þó úr, þegar við blasir að samþykktar hafa verið tillögur um innheimtu félagsgjalda, sem ganga út á það að það skuli verða þær búgreinar sem minnstrar og nær engrar hagsmunagæslu njóta hjá Bændasamtökunum, sem komi til með að bera rekstur félagsskaparins uppi með félagsgjöldum sínum.
Greinar sem lítið sem ekkert bera úr býtum vegna starfsemi Bændasamtakanna og jafnvel má færa fyrir því rök að í sumu beri af henni skaða.
Að lokum er rétt að minna á að kosning til stjórnar Bændasamtakanna á síðasta Búnaðarþingi fór þannig að garðyrkjan fékk 1 fulltrúa, sauðfjárbændur 2, kúabændur 2 og eggjabændur 1.
(Ástæða þess að stjórnarmenn teljast sex í upptalningunni en eru í raun fimm, er að tveir eru með blandaðan búskap sauðfjár og kúabúa og hafa kynnt sig sem slíka og hafa væntanlega hagsmuna að gæta á tvennum vígstöðvum.)
Efsta myndin er tekin af vefnum bondi.is, í miðið af bbl.is (ef rétt er munað) og sú neðsta sýnir kindur á gæðastýrðri(?) beit.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.