13.4.2020 | 11:28
Páskamatarumræðan!
Vegna umræðu um hvað hafi verið í matinn í gær, páskadag skal upplýst, að páskadagsmaturinn hjá okkur var heimareykt lambalæri af heimaöldu og heimaslátruðu árgerð ca. 2019.
Blessað lambið var svift þeirri ánægju og lífsfyllingu sem fæst við að vera vindbarið, hálfsvelt og sandblásið á hálendi landsins.
Auk þess sem það naut þess ekki að vera hund-, hest-, og mótorhjólahrakið við haustsmölun og síðan flutt á heygrind aftaní dráttarvél um mislangan veg.
Hafði sem sagt haft nóg að éta þann skamma tíma sem það naut lífsins í þessum heimi; hvað forðast skal samkvæmt íslensku framsóknaríhaldsritúali um meðferð sauðkinda.
Kjötið var afbragðsgott og laust við þá dularfullu seigju og hrútabragð, sem svo mjög er rætt um af snöggfituðum, kálbeittum og ríkisreknum fjalllömbum.
Var algjört lostæti eins og best getur orðið, og laust við að vera til orðið með ríkisstyrk til gæludýrahalds, þó móðir þess og faðir hafi gæludýr verið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.