Já eða nei, það er efinn.

Ögmundur Jónasson ritar grein í Morgunblaðið í dag (9.4.2020) og ávarpar formann Framsóknarflokksins: Hvetur hann til að fylgja sannfæringu sinni og í fljótu bragði gæti einhverjum þótt sem ekki sé nú farið fram á mikið.

Ögmund langar til að hrósa formanninum en er ekki alveg sannfærður um að rétt sé að gera það; hefur verið að fletta blöðum og tímaritum og svo er að sjá sem Ögmundur sé ekki alveg viss.

Gleðst þó yfir því að í safninu hafi hann fundið tvær ,,prýðisgóðar“ greinar eftir foringjann sem birst hafi í Morgunblaðinu í nóvember 2018 og yfirskriftir þeirra munu vera:

,,Hugsum út fyrir búðarkassann“ og hin ,,Frelsi til heilbrigðis“.

Í báðum greinunum mun formaðurinn hafa varað við innflutningi á hráu kjöti eftir því sem Ögmundur segir og í þeirri síðarnefndu hefur hann eftir Sigurði:

,,Ég lít svo á að það sé þess virði að berjast fyrir breytingum á EES samningnum til þess að vernda þá góðu stöðu sem við höfum á sviði landbúnaðar, dýraheilbrigðis og lýðheilsu. Um þetta er gríðarleg vakning um allan heim en ekki síst á Norðurlöndum. Það erfiða við þetta mál er ekki síst það að ef við leyfum tímanum að leiða í ljós hvort það hafi áhrif á lýðheilsu Íslendinga að flytja inn hrátt kjöt þá verður okkur í Framsókn engin fró í því að standa upp eftir 20 ár og segja ... I told you so“.

Og eins og sjá má gerir formaðurinn ráð fyrir að Framsóknarmenn framtíðarinnar komi til með að tala ensku.

Í greininni þar sem Sigurður hvetur til hugsunar út fyrir búðarkassann, mun standa eftirfarandi texti samkvæmt Ögmundi:

,,Viljum við þakka íslenskum bændum fyrir að byggja hér upp heilbrigðan bústofn og framleiða heilnæmar vörur með því að leyfa versluninni að flytja inn hrátt kjöt og stefna lýðheilsu í hættu? Viljum við knýja þá til að stíga niður á sama plan og mörg lönd Evrópu eru að glíma við að komast út úr? Framsókn segir nei.“

Framsókn segir nei, hvorki meira né minna! Og það er meira blóð í kúnni og tilvitnunin heldur áfram:

,,Á Íslandi höfum við verið svo lánsöm að búa við þær aðstæður að íslenskar landbúnaðarafurðir eru með því heilnæmasta sem finnst í heiminum. Búfjársjúkdómar eru sjaldgæfir vegna legu landsins og vegna þess hvernig bændur hafa staðið að búskap sínum. Við erum því í einstakri og eftirsóknarverðri stöðu þegar kemur að því að kaupa í matinn. Við getum valið íslenskt og verið örugg um það að sú vara er með því öruggasta og besta sem fyrirfinnst í matvöruverslunum í heiminum.“

Bara nokkuð gott og hér getum við verið sammála. Síðan kemur þetta:

,,Síðan breyttist eitthvað því nokkrum vikum síðar, eftir nokkra fundi í ríkisstjórn, sagði Sigurður Ingi, flokksformaður og ráðherra, skyndlega já.“

Sigurður sagði sem sé nei og síðan já.

Við könnumst við það.

Ögmundur veltir því fyrir sér hverju sé um að kenna og er það að vonum; telur að það geti ekki verið VG að kenna og að fyrst svo sé þá liggi Sjálfstæðisflokkurinn undir grun og spyr hvort hann hafi verið tilbúinn til að fórna lýðheilsuhagsmunum?

Ögmundur vill fá svör við því hversvegna Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn ,,gáfust upp í málinu“ og telur sig eiga rétt á svari og greininni lýkur með brýningu:

,, En þá er líka komið að kjarna erindis míns við Sigurð Inga Jóhannsson. Ef þetta var þín sannfæring sem birtist í framangreindum skrifum þínum, sem ég hef trú á að hafi verið, þá er lag núna að taka málið upp að nýju! Hafi það verið rétt hjá þér í nóvember 2018 að um þetta “ (þ.e. hættu á að flytja inn sýklalyfjaónæmi) sé gríðarleg vakning um allan heim“ þá má víst telja að ekki hafi dregið úr þeirri vakningu nú. Þess vegna leyfi ég mér að segja, Sigurður Ingi Jóhannsson, fylgdu sannfæringu þinni! Gerirðu það áttu lof skilið, að öðrum kosti hlýtur fyrirvarinn sem nefndur var í upphafi að gilda.“

Upphafspunktur Ögmundar er árið 2018 en Sigurður er búinn að vera lengur í pólitík en síðan þá. Hann var til dæmis landbúnaðarráðherra árið 2015 þegar hann samdi við Evrópusambandið um auknar innflutningsheimildir af ýmsu tagi.

Þar má nefna auknar heimildir til aukins innflutnings á hráu kjöti af alifuglum, svínum og nautum auk osta. Kjötið átti á þeim tíma að vera frosið en eigi að síður hrátt, óeldað og óhitameðhöndlað og ef Ögmundur er að hugsa um að með innflutningi á hráu kjöti geti borist bakteríur, sem vissulega getur gerst, þá er rétt að hafa í huga að bakteríur allflestar geymast ágætlega í frosti og sé frosið kjöt eldað er vaninn að þýða það upp fyrst.

Þannig að þar sem formaður Framsóknarflokksins spyr og svarar með orðunum:

,,Viljum við knýja þá [íslenska bændur] til að stíga niður á sama plan og mörg lönd Evrópu eru að glíma við að komast út úr? Framsókn segir nei.“

Sagði Framsókn nei, en gerði síðan allt annað.

Pólitíkin er stundum flókin og illskiljanleg, en að Framsókn segi nei og síðan já er kunnuglegt. Minnistætt er þegar Sigurður messaði yfir bændum á Hótel Selfossi eftir gerð fyrrnefndra samninga árið 2015 og hvatti þá til að standa sig.

Við munum sem heyrðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband