8.4.2020 | 11:15
Breytingar í kjölfar þjóðfélagsástands.
Talsmaður FESK, samtaka bænda sem framleiða egg, svína og kjúklingakjöt, ritar grein í Morgunblaðið (8/4/2020) og fagnar mögulegri stefnubreytingu hjá Samtökum verslunar og þjónustu.
Þar á bæ virðist, sem sú breyting sé á orðin, að menn vilji að skipt sé við íslensk fyrirtæki, eða eins og segir í grein formanns Samtaka verslunar og þjónustu sem Sigmar Vilhjálmsson vitnar til:
,,Sýnum í verki samtakamátt okkar og skiptum við íslensk fyrirtæki. Með því hjálpum við fyrirtækjunum að komast yfir erfiðasta hjallann og leggja þar með grunn að kröftugri viðspyrnu atvinnulífsins þegar aftur birtir til."
Við vonum að nú sé komin sú tíð að íslenskir kaupmenn sem barist hafa fyrir innflutningi matvæla án takmarkana séu búnir að endurskoða hug sinn og átta sig á því að það er ástæðulaust að sækja vatnið yfir lækinn.
Það er vel hægt að sleppa því, þó heimilt sé vegna milliríkjasamninga sem gerðir voru til að tryggja útflutningshagsmuni þjóðar okkar.
Rétt eins og þeim aðilum sem fulltrúar þjóðar okkar sömdu við á sínum tíma, er ekki skylt að kaupa íslenskar fiskafurðir nema að þeir kjósi svo.
Gott er svo að hafa í huga að möguleikarnir á umsvifum á stórum mörkuðum eru miklir og eflaust góðir fyrir áhugasama og kappsama íslenska verslunarmenn, ef þeir vilja fara í víking og beita hæfileikum sínum almenningi annarra landa til hagsbóta.
Um það má lesa í grein sem bar yfirskriftina ,.Innflutningur án takmarkana".
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.