31.3.2020 | 12:17
Öfgarnar halda áfram.
Í gær voru það prófessorar tveir, annar fyrrverandi og hinn núverandi, sem áttu leikinn í umræðunni.
Í dag er leikurinn öllu ójafnari, því að sviðinu eru annarsvegar tvær þjóðir og hins vegar fyrrverandi íslenskur landbúnaðarráðherra og Framsóknarflokksformaður og margfrægur Kanaríeyjaaðdáandi.
Þjóðirnar eru Svíar og Hvítrússar sem þykja taka COVIT-19 pestinni af léttúð; eru ekkert að stressa sig yfir málinu, þeir fyrrnefndi fara óhikað á öldurhúsin meðan sæti finnast og þreyja Þorrann og Góuna og trúlega allt sem á eftir þeim kemur og rennur, með jafnaðargeði, enda jafnaðarmenn að hluta.
Ekki liggur fyrir hvort Alexander Lúkasjenko telur sig til jafnaðarmanna, en forseti er hann og er ákveðinn í því að láta ekki einhverja veirupest buga sig né þjóð sína; mætir á mannamót með bros á vör og telur sig og hvítrússnesku þjóðina hafa séð það svartara, en það sem hvort eð er sést ekki!
Íslenski stjórnmálamaðurinn fyrrverandi, lítur öðruvísi á málið og þó, kannski er það fullmikið sagt, og ekki liggur fyrir hvort hann lítur á málið yfirleitt, en vill þó loka landi sínu fyrir öllu og kannski öllum til frambúðar. Hann vill loka fyrir innflutningi en ekki útflutningi, stofna nýtt og vígalegt landbúnaðarráðuneyti af gamla skólanum og bjarga þjóðinni með því að fórna henni fyrir málstaðinn.
Elskar íslenska sauðkind svo mikið að hann elskar að éta hana að hausti.
Það er ekki ofsagt að ólga og öfgar ráði för; báturinn veltur á bæði borð og mannskapurinn hegðar sér eftir því.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.