Metum íslenskt sem vert er.


Á það hefur margoft verið bent af talsmönnum bænda og fleirum að ,gott væri heima hvað‘, að rétt væri af íslenskri þjóð að halla sér íslenskum afurðum, en við misjafnar undirtektir.

Aðrir segja sem svo að það skerði kjör fólks að eiga ekki kost á að kaupa og neyta erlendra landbúnaðarafurða. Það er gilt sjónarmið svo langt sem það nær og ljóst er að ef innflutningur á erlendum landbúnaðarvörum væri einfaldlega bannaður, svo sem gert er í raun með t.d. kindakjöt, veldur það einkennilegri stöðu á markaði, svo það sé nú pent og gætilega orðað.

(Það þarf ekki að fjölyrða um ríkisreksturinn á þeirri búgrein, hvert hann er kominn og til hvers hann hefur leitt. Nægir þar að nefna markaðsinngrip, ofbeit, ríkisstyrki til gæludýrahalds, ríkisrekna markaðsskrifstofu til útflutnings og innanlandssölu, gríðarlega flókið og ógegnsætt styrkjakerfi, ,,gæðastýringu“ sem er nafnið tómt og fleira mætti til telja.)

Vegna viðskiptahagsmuna þjóðarinnar varðandi útflutningsvörur, var samið um innflutningsheimildir á landbúnaðarvörum fyrir nokkrum áratugum. Og síðan aukið við er núverandi formaður Framsóknarflokksins samdi um auknar heimildir fyrir innflutning á alifuglakjöti, nautakjöti, svínakjöti og ostum, í von(?!) um aukinn útflutning á kindakjöti til ESB. Sem ekki gekk eftir, enda engan slíkan markað að finna í því viðskiptasambandi, hvað þá markað sem greitt getur framleiðslukostnaðarverð íslensks kindakjöts.

Á endanum eru það neytendur sem ráða úrslitum og kaupa afurðir okkar bændanna ef við stöndum okkur í verði og gæðum. Samt má ekki gleyma því að skilyrði þurfa að vera sem jöfnust hér og þar. Þar vantar mikið uppá á mörgum sviðum og það er t.d. ekki tryggt að neytendur meti það sem skyldi, að ýmsar kröfur sem gerðar eru til framleiðslunnar og framleiðsluskilyrða eru strangar hér en þar.

Þeir vita sem rétt er að við höfum flest lifað af evrópskar landbúnaðarafurðir og það þó úr suður Evrópu væru.

Eða hafa lent í því líkt og undirritaður í veirufáti(!), að grípa danskar svínakótilettur í íslenskum umbúðum, en merktum sem danskar væru með örletri! Þær reyndust reyndar góðar svo sem við var að búast, en eigi að síður mun ég gæta mín betur næst!

Tryggjum svo sem unnt er að staða íslenskra bænda sé sambærileg við það sem gerist best, hættum óþörfum ríkisrekstri og stöndum saman um íslenskt samfélag á sem heilbrigðustum grunni og eftir því sem við höfum best vit á.

Gerum eðlilegar og sanngjarnar kröfur til íslenskrar framleiðslu og búum henni sem best samkeppnisskilyrði. Munum að við búum á eyju í miðju N-Atlantshafi og því verður ekki breytt, nema með því að flytja af henni og það viljum við fæst og ekki nóg með það: það er fjöldi fólks sem vill flytja til okkar og telur að hér sé gott að búa.

Tökum því fagnandi og metum sem vert er, að hafa verið svo heppin að verða til í þessu góða landi.

Og vel á minnst: förum vel með landið okkar, og betur með það á morgun en í gær!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband