Skipulagsmál Reykjavíkur - flugvöllur.

Í Morgunblaðinu í dag má lesa frétt um skipulagsmál í Reykjavík, þ.e.a.s. hvort innanlandsflugvöllur skuli vera í Vatnsmýrinni, svo sem verið hefur síðan Bretar hrófluðu honum þar upp á stríðsárunum.

Það er síðan athyglisvert að sjá hvert viðhorf landsbyggðarinnar er til skipulagsmála í höfuðborginni, en skv. Morgunblaðsfréttinni eru: ,,Ellefu af þrettán umsögnum sem umhverfis og sam­göngu­nefnd Alþing­is barst vegna um­fjöll­un­ar um þings­álykt­un­ar­til­lögu um þjóðar­at­kvæðagreiðslu um Reykja­vík­ur­flug­völl [...] já­kvæðar. Reykja­vík­ur­borg ein leggst gegn at­kvæðagreiðslunni en Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga tek­ur ekki af­stöðu."

Höfum í huga að ,,jákvæðnin" felst í því að sveitarfélög vítt um land vilja ráða skipulagsmálum í Reykjavík!

Skv. Morgunblaðsfréttinni er: Til­lag­an [...] flutt af Njáli Trausta Friðberts­syni og fimmtán öðrum þing­mönn­um úr fjór­um þing­flokk­um og þingmennirnir eru samkvæmt því sem lesa má á vef Alþingis:

,, Njáll Trausti Friðbertsson, Ásmundur Friðriksson, Haraldur Benediktsson, Óli Björn Kárason, Páll Magnússon, Jón Gunnarsson, Vilhjálmur Árnason, Anna Kolbrún Árnadóttir, Sigurður Páll Jónsson, Þórarinn Ingi Pétursson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Inga Sæland, Karl Gauti Hjaltason, Halla Signý Kristjánsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Bergþór Ólason".

Það er áhugaverður hópur þingmanna sem vill láta efna ,,til þjóðar­at­kvæðagreiðslu um hvort flug­völl­ur og miðstöð inn­an­lands- og sjúkra­flugs skuli vera áfram í Vatns­mýr­inni í Reykja­vík eða ekki."

Vilja taka skipulagsvaldið af höfuðborginni.

Tillagan mun hafa veri flutt áður og er nú flutt að nýju, því málið liggur þungt á þingmönnunum og ekki bara þeim, því eins og lesa má í fréttinni, þá hafa: ,,Sveit­ar­stjórn­ir, sam­tök sveit­ar­fé­laga og tvö flug­manna­fé­lög", lýst yfir áhuga á að fikta í stjórnsýslu höfuðborgarinnar með þessum hætti.

Reykjavík vill, að vonum, verja skipulagsvald sitt.

Nú er ritari spenntur og bíður eftir að því verði lýst yfir af sveitarfélögum landsbyggðarinnar:

Að þau telji sjálfsagt og eðlilegt að Reykvíkingar greiði atkvæði um skipulagsmál annarra byggðarlaga út um land.

Það er bæði gömul saga og ný, að ,,fólkið á mölinni", sé ekki talið til þess bært, að ráða sínum ráðum og að fyrir því þurfi að hafa vit í ýmsum efnum.

Fljótt á litið hefði maður haldið að við værum komin eitthvað lengra og vel getur verið að svo sé.

Þau sem hafa tjáð sig með þessum hætti um málið og flutt um það þingsályktunartillögu, eru samt augljóslega ekki komin á tuttugustu og fyrstu öldina og vel má efast um að þau séu komin á þá tuttugustu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband