Hjólbörur úr steinsteypu.

Sem barn man ég eftir stórum þungum heimasmíðuðum hjólbörum, sem voru með hjóli sem var lítið járnhjól úr steypujárni með gegnheilum og þunnum gúmmíborða. Sá sem átti þessar börur var afi minn, stór og sterkur maður sem fór létt með að nota þetta verkfæri og það þó fullar væru af möl; hafði smíðað þær og raðað saman með því sem til var, enda efnin lítil en sjálfsbjargarviðleitnin næg.

Fólk af þeirri kynslóð sem í heiminn kom um þar-síðustu aldamót reyndi að bjargast með því sem bauðst og hrópaði ekki í sífellu á aðra sér til bjargar eða til að kenna um.

Einkabíllinn var gamall Pontiac, sem við fórum á allar okkar ferðir og ég hafði það hlutverk að skipta í ,,þriðja" svo því sé nú ekki gleymt! Sat vitanlega frammí og amma afturí og sjálfsagt hafa þau bæði haft lúmskt gaman að litla barnabarninu.

Þetta var á þeim árum þegar ekki var búið að njörva samfélagið niður með reglugerðabunkum sem enginn sér yfir, né skilur til fulls. Bílnum breytti afi minn síðan í pallbíl með því að skera aftan af húsinu, enda orðinn leiður á að troða þungum gaskútum inn í bílinn fyrir framan aftursætið. Hann var járnsmiður og var stundum að gera eitt og annað fyrir aðra, auk þess sem hann vann í Vélsmiðjunni Héðni hf.
En aftur að hjólbörunum.

Það er algjörlega útilokað að honum afa mínum hefði komið til hugar að smíða sér hjólbörur úr steinsteypu, því þó stór, sterkur og hraustur væri, hefði hann talið það óðs manns æði!

Afi var ekki menntaður í nýjustu tækni og vísindum þeirra tíma sem við sem nú erum á dögum, lifum á, en viss er ég um að hann hefði sett mörg spurningarmerki við að búa til bíla þar sem í væri troðið í hvert skúmaskot níðþungum rafgeymum til að rennireiðin kæmist með nokkrar hræður smá spotta og yrði þar síðan um langan tíma í hleðslu til að hægt væri að endurtaka leikinn og þannig koll af kolli.

Enn er ekki búið að finna upp rafgeymi sem er álíka þungur og bensíngeymir og inniheldur sambærilega orku og hann. Þetta vita allir sem vilja vita og jafnvel líka íslenskir ráðamenn sem gera það sér til öflunar vinsælda að fella niður skatta og gjöld af rafbílum, sem eru því miður mislukkuð fyrirbæri sem munu renna sitt skeið og hverfa, nema til komi uppfinningar sem engum sögum fer af.

Missum samt ekki móðinn, því líklegt er að lausnir séu handan við hornið t.d. í líki vetnis og metan og verði það raunin, mun sú lausn duga fyrir lítil sem stór ökutæki og brenna því sem er til óþurftar í andrúmsloftinu.

Skattleggjum rafbílana svo sem eðlilegt er með tilliti til vegaslits og gjalda sem eru lögð á önnur ökutæki og hættum að auka mismunun í samfélaginu með niðurfellingu gjalda fyrir þau efnameiri, á kostnað þeirra sem minna hafa handa milli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband