Um kvótakerfi.

Kvótakerfin í landbúnaði og sjávarútvegi eru oft  til umfjöllunar og Benedikt Jóhannesson tekur þau fyrir í grein sem birtist í föstudagsblaði Morgunblaðsins.

Hann byrjar pistilinn með því að segja: að þegar stjórnmálamenn taki sér fyrir hendur að ,,búa til kerfi til að leysa allan vanda [sé] voðinn oftast vís" og kemst að þeirri niðurtöðu að ,,byggðakvóti [leiði] af sér óhagræði og spillingu."

Það er ekki ofsögum sagt að kvótakerfin leiði af sér ýmislegt annað en það sem líklegast hefur staðið til þegar þeim var komið á. Benedikt vitnar í orð formanns starfshóps sem mun hafa skilað skýrslu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og hefur eftir honum eftirfarandi:

,,Mikið af svokölluðu ,,svindli" í þessu kerfi er þegar menn eru að reyna að finna leiðir framhjá því sem er óhjákvæmilegt. Annaðhvort með því að fá undanþágur eða vera með einhverjar brellur. Það virðist sem kerfið sé byggt upp í kringum það að reyna að koma hlutunum í ástand sem var 1970 eða 1980."

Það er ekki góð einkunn sem hér er gefin.

Kvótakerfi var komið á til að koma stjórn á fiskveiðar á miðunum umhverfis landið og líklega blandast fáum hugur um að meiningin hafi verið góð. Augljóst var orðið að sá háttur sem áður var, að allir veiddu þar sem þeir vildu og það sem þeir vildu og án nokkurs tillits til ástands fiskistofna hafði leitt til ofveiði og hruns fiskistofna.

Hvort allt hafi verið gert rétt og hvort ekki hefði mátt fara aðra leið er hins vegar vert að skoða.

Tillögur hafa komið fram um að fara mætti þá leið að bjóða upp aflaheimildir og þá þannig að það verði gert í áföngum til að valda ekki of miklu raski fyrir þá sem stunda veiðar eftir núverandi kerfi: Innleiða kerfi sem býður þeim sem vilja stunda veiðar að gera það og greiða fyrir við útboð á fiskveiðirétti, í stað þess að greiða til ríkissjóðs eins og gert er samkvæmt núverandi kerfi.

Setja kvótann á markað eftir uppboðsleiðinni svokölluðu.

Benedikt segir um ,,byggðakvótann", að hann sé 5,3% af heildaraflamagni og að verðmæti á landinu öllu allt að 7,6 milljarðar á ári og um heyrist sögur að hann sé notaður til að hygla ,,réttum" útgerðum veiðiheimildum sem séu um ,,100 til 150 milljarða króna" virði.

Fram kemur (í greininni)að útgerðarmenn geta leigt úthlutaðan kvóta frá sér, ef þeir svo kjósa og látið aðra um að veiða fiskinn og lagt andvirðið inn á bankareikning.

Hugmyndir um að breyta kvótakerfinu þannig að kvótinn sé boðinn út og síðan úthlutað til hæstbjóðenda hafa ekki fengist skoðaðar, né ræddar af neinni alvöru.

Þær tillögur hafa verið bornar uppi af Samfylkingunni og hafa gengið út á að kerfinu yrði breytt í áföngum, til að valda ekki kollsteypu í umhverfi útgerðarinnar og ekki hefur verið um að ræða ,,byggðakvótann sérstaklega. 

Hugmyndirnar hafa ekki fengist ræddar af neinni alvöru eins og fyrr segir og þeir sem fyrir eru á fleti, vilja sitja sem fastast á núverandi kerfi.

Vilja ekki breytingar nema ef til vill að þær gætu orðið til þess að rýmkað yrði um möguleika til að menn geti komist yfir enn meira og kvótinn yrði á enn færri höndum. Og þeir hafa fundið leiðir til þess! 

Fréttir hafa borist um að útgerðarfyrirtækið Samherji sé komið með yfirtökuskyldu í ,,óskabarni þjóðarinnar" Eimskip hf., eftir að hafa aukið hlut sinn í félaginu.

Sýnir okkur að þeir sem eru duglegir og útsjónarsamir geta komið ár sinni víða fyrir borð og Þegar komið er að ystu mörkum heimilda í söfnun aflaheimilda er hægt að bleyta öngulinn í öðrum sjó, bæði á Íslandi sem annarstaðar.

 

2020-03-14 (4)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband