Landbúnaðurinn á KVEIK.

Það logaði vel hjá sjónvarpsmönnum í gærkvöldi þegar þeir tóku fyrir á fremur óvæntan hátt, til umfjöllunar landbúnaðarmálin í fréttaskýringarþættinum Kveik. Málaflokk sem er líkt og óhreinu börnin hennar Evu, ekki til umræðu svona dags daglega og færri hafa áhuga á en ættu kannski að hafa.

Farið var vítt yfir sviðið og fram kom að samkvæmt búvörusamningum kostar atvinnuvegurinn þjóðina um 14,4 milljarða á ári og alls ekki víst að þar með sé allt talið, síður en svo.

Gróflega má segja að komið hafi fram að kúabúskapurinn kosti um 7 milljarða, sauðfjárræktin um 5,2 milljarða, grænmetisræktin 0,6 milljarða og allt annað sem telja má til landbúnaðar þ.e. rammasamningurinn 1.6 milljarða. 

Þegar kom að síðasta liðnum og ef við tökum saman grænmetisræktina og rammasamninginn, sem skv. umfjöllun Kveiks var um 1,6 milljarður, var brugðið upp myndum sem okkur þótti koma spánskt fyrir. Þar var með öðru myndir af svínakjöti og kjúklingakjöti.

Gott hefði verið að fá nánari skýringar. Við vitum þó að svínabændur munu hafa fengið í gegnum búvörusamningana um 650 milljónir til úreldingar á svínahúsum, en hvers vegna var brugðið upp mynd af kjúklingi. Fengu kjúklingabændur eitthvað í gegnum samningana sem okkur hefur sést yfir?

Vil vildum líka gjarnan fá að vita hvort allt var talið sem viðkemur sauðfjárræktinni. Var eingöngu verið að tína til samninginn fyrrnefnda eða eru líka inni í tölunum aukagreiðslur úr ríkissjóði til styrktar útflutningi? Vitað er að slíkar sérgreiðslur hafa verið inntar af hendi.

Voru talin fram framlög vegna sauðfjárveikivarna (riðubætur og fleira.)og eru ekki enn rekin ,,tilraunabú" vegna búgreinarinnar? Hvernig er rekstur þeirra kostaður?

Fróðlegt hefði einnig verið að fá fram hvernig fjármögnun sendinefnda sölumanna lambakjötsins sem ferðast hafa heimsenda milli er. Koma þeir peningar líka úr ríkissjóði og eru þeir inni í fyrrnefndum tölum?

Best er trúlegast að velta því ekki fyrir sér, hvort útlagður kostnaður sendisveitanna hafi fengist greiddur með hagstæðum sölusamningum.

,,Mörg er hún músarholan" og hreint ekki hægt að ætlast til þess að mögulegt sé að komast til botns í þeim fjármálafrumskógi sem búinn hefur verið til utan um kvótagreinarnar tvær, kúabúskap og suðfjárrækt og ekki bar til að mynda Framleiðnisjóð á góma.

Það hefur verið sagt, að kvótakerfið sem ,,kvótaflokkarnir" komu á í landbúnaði, virki eins og einhverskonar einnota lífeyrissjóðskerfi. Þeir sem fengu það í upphafi sem aðgang að neytendum, hafa getað selt það, þegar að starfslokum kom.

Næsta kynslóð þurfti sem sagt að kaupa dýrum dóma það sem þeirri fyrri var gefið og þar með er kvótasölusagan öll,þ.e.a.s. gyllta hliðin.

Núverandi kvótakynslóð getur nefnilega ekki gengið að því sem gefnu að ,,kvótinn" verði söluvara þegar að því kemur að þeir sem á kvótanum halda, vilja losna úr starfsgreininni.

Daði Már Kristóferson sagði réttilega á þá leið í þættinum, að núverandi kerfi væri þannig að síðasti bóndinn mundi slökkva ljósið.

Menn geta svo leitt hugann að því hvað við sé átt og á hvaða leið sé verið. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband