Eldur og reykur.

Svo er að sjá sem ritdeila sé hafin á miðlinum Kjarnanum milli Haraldar Benediktssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi formanns Bændasamtaka Íslands annars vegar og Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda hins vegar.

Haraldur varð þekktur af formennsku hjá B.Í., þar sem hann gætti hagsmuna sauðfjárbænda af talsverðum dugnaði, en einnig gætti hann hagsmuna kúabænda dálítið líka, en Bændasamtökin eru sem kunnugt er, hagsmunagæslusamtök þessara búgreina, aðrar landbúnaðargreinar fá síðan að fljóta með fyrir siðasakir.

Ein þessara siðasakabúgreina er garðyrkjan og má segja að hún sé í þriðja sæti á lista hinna fornu samtaka.

Haraldur ritaði grein í Kjarnann sem birtist 3. febrúar þar sem fram kemur að hann telur að heildsalar missi spón úr aski sínum ef tekið verði á áralangri misnotkun og svindli við innflutning blóma, vitnar síðan í fræga setningu Nóbelskáldsins, sem það lagði í munn Jóns Hreggviðssonar, þar sem hann veltir því fyrir sér hvenær maður sé drepinn og hvenær ekki.

Haraldi datt setningin í hug eftir að hafa lesið um viðbrögð Félags atvinnurekenda við færslu hans á Facebook.

Rétt er að taka fram, að ekki er sem betur fer vitað til að nokkur hafi verið drepinn enn sem komið er og vonandi fer ekki svo. Haraldi er bara heitt í hamsi vegna fullyrðingar um að heildsalar missi spón úr aski: "eftir að tekið var á áralangri misnotkun og svindli við innflutning blóma".

Ekki verður hér farið yfir grein Haraldar í heild sinni. Áhugasamir geta kynnt sér hana á Kjarnanum, en rétt er þó að nefna að Haraldur vitnar til reynslu Norðmanna, sem hafi fellt niður tollvernd af blómaframleiðslu, sem hafi orðið til þess að framleiðsla blóma í Noregi hafi "nánast" lagst af og er svo var komið, hafi verð á blómum hækkað aftur og innflytjendur aukið hagnað sinn.

Haraldur segist vilja fjölbreytt atvinnulíf og telur sig "sitja undir ásökunum um að ganga erinda sérhagsmuna" og endar grein sína á því að segja að: "Þannig verður vöndur atvinnulífs og byggðar á Íslandi að einu viðkvæmu blómi"(!)

Ólafur Stephensen svarar með grein sem ber yfirskriftina "Þingmaður veður reyk" og finnst greinilega þungt að sitja undir ásökunum um að: blekkja og stela", "misnotkun og smygl[i]" og um "áralanga brotastarfsemi", en þessi orð munu hafa verið notuð í tilvitnuðum Facebook pistli Haraldar.

Hann telur hann draga í land í grein sinni í Kjarnanum frá því sem hafi verið í pistlinum, "enda getur hann ekki nefnt eitt dæmi um lögbrot" eins og segir þar. Ólafur telur Harald ekki færa sönnur á mál sitt og krefur hann um að biðjast afsökunar á því að saka fjölda fyrirtækja um það sem hér var talið; segir frá því að fyrirtæki í blómaverslun séu almennt sammála um að tollar séu of háir.

Og síðan: "Hið ,málefnalega' svar þingmanns Sjálfstæðisflokksins [við umleitunum um lækkun tolla] er efnislega: Blómainnflytjendur eru glæpamenn og það á ekki að tala við glæpamenn."

Hér takast á stálin stinn!

Vitanlega er það hlutverk Ólafs Stephensen að vera málsvari fyrir sína umbjóðendur. Það er hins vegar ekki eins ljóst hverra hagsmuna Haraldur Benediktsson er að gæta með þingsetu sinni. Er hann þar sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem telur sig vera frjálslyndan og víðsýnan, en er það fyrst og fremst í orði en ekki á borði.

Flokkurinn er hagsmunagæsluflokkur ákveðinna hagsmuna og fyrir hluta þeirra hagsmuna stendur Haraldur ágætlega. Að þessu sinni eru það blómabændur sem hann er að verja og þar sem um er að ræða anga af þriðju búgreininni sem Bændasamtökin standa fyrir þ.e. garðyrkjubændur, þá kemur það ekki á óvart.

Ær og kýr hafa svo lengi sem elstu menn muna verið næst hjarta Sjálfstæðisflokksins af landbúnaðargreinunum og nú er garðyrkjan (blómabændur) farin að verma það hjarta líka svo eftir er tekið. Hugsanlega fer landbúnaðarhjarta Sjálfstæðisflokksins að slá með landbúnaðinum öllum um það bil sem þessi öld er á enda, nú eða þá sú næsta.

Hvað sem um það er, þá geta Sjálfstæðismenn lifað í voninni.

Hvernig það fer hjá Framsóknarflokknum og Vinstri grænum er óljósara (svo ekki sé nú minnst á Miðflokkinn), því ekkert bendir til að á þeim bæjum finnist ójarmandi landbúnaður, a.m.k. ekki á Íslandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband