3.2.2020 | 18:35
Vísindin efla alla dáð.
Á Facebook fer fram nú um stundir lífleg umræða um fitu, heimsku og hreina vitleysu. Finnst eflaust mörgum vettvangurinn til umræðunnar vel til fundinn, vel valinn og við hæfi.
Tilefnið mun vera það að Kári Stefánsson á að hafa sagt, (eða ekki hafa sagt,) að þeir sem séu of feitir séu heimskari en annað fólk.
Þar sem það er Kári Stefánsson sem er sagður hafa sagt þetta, þá gengur maður út frá því, að þar með sé fullyrðingin vísindalega sönnuð.
Að sögn Kára er þetta ekki rétt eftir haft, og að hann hafi ekki sagt það sem hann er sagður hafa sagt, og þar sem undirritaður var ekki áheyrandi að umræðunni, verður Kári látinn njóta vafans í þessum skrifum.
Kári telst ekki vera feitur að mati ritara og samkvæmt kenningunni: er hann að sama skapi óvitlaus.
Hiti er í umræðunni og það svo mikill að rétt þótti ritara að hlaupa á yfirferðarbrokki yfir margt sem þar var sagt: Þú sagðir það víst (eða eitthvað nærri því) var sagt, og ég sagði það alls ekki var sagt líka!
Hvað var sagt og hvað ekki, skiptir svo sem engu máli. Það sem skiptir máli, er að rannsókn hefur farið fram á orsökum offitu og niðurstaðan liggur fyrir, ef rétt er skilið, en ekki ef rangt er skilið.
Það er sem sagt óhollt að vera of feitur eins og marga hefur grunað. Það er óhollt að borða of mikið eða að minnsta kosti meira en líkaminn brennur og nú er þetta sem sagt vísindalega sannað, og var tími til kominn, myndi eflaust einhver segja!
Fita er vond (þó sumum þyki hún góð) og offita bráðvond. Hömluleysi er vont og algjört hömluleysi bráðvont.
Þetta hefur okkur mörg grunað og ekki minnkar grunurinn við að hafa reynt þetta á eigin skinni; hafa étið yfir sig og verið hömlulaus.
Og er þá komið að matarkúrunum sem öllu tröllríða.
KETO (sem ekki má rugla saman við Keiko!), VEGAN og vafalaust eru þeir til margir fleiri kúrarnir, þó ekki munum við eftir fleirum í bili.
Keto gengur út á að éta kjöt (með fitu), fisk (líka feitan fisk), egg og grænmeti með ef rétt er skilið. Borða sem sagt almennan mannamat og verða af því grannur og nettur.
Vegan gengur út á að snæða grænmeti í ómældu magni og með allskyns aðferðum við matreiðslu sem höfð er uppi til að að gera grasmetið sem líkast venjulegum steikum líkt og kjötæturnar neyta.
Afleiðingarnar hefur síðan mátt sjá í þáttum sem sýndir hafa verið í Sjónvarpinu að undanförnu. Þar hafa verið til umfjöllunar górilluapar sem neyta eingöngu jarðargróðurs og hafa þróast af því, í að vera óhemju vemdir vegna fyrirferðar heljarmikillar garnaflóru og garnalengja sem þeir hafa komið sér upp til að geta unnið orkuna úr grasmetinu.
Jórtra samt ekki.
Engum sérstökum fregnum fer að gáfnafari górillanna þó áhugavert væri, en sá sem með þeim fylgist er karlmaður; grannur og eflaust þar af leiðandi óheimskur.
Gera má ráð fyrir að hann fái sér góða steik er heim er komið eftir erfiði dagsins og skoli henni jafnvel niður með einhverju góðu sem búið er til úr jurtaríkinu.
Minnugur þess, að fjölbreytnin er góð og að allt er best í hófi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.