26.1.2020 | 12:57
Bændasamtök Íslands í vanda.
Í Bændablaði því sem út kom þann 23. janúar sl. er vandinn sem blasir við Bændasamtökunum tekinn til umfjöllunar.
Á bls. 2 er greint frá því að formaður Landsamtaka kúabænda gefi ekki kost á sér til endurkjörs, en í sama dálki er líka sagt frá því að Guðrún Sigríður Tryggvadóttir núverandi formaður Bændasamtakanna ætli að gefa kost á sér til kjörs á Búnaðarþingi því sem haldið verður þann 2. mars í Bændahöllinni í Reykjavík.
Guðrún tók við formennsku eftir að Sindri Sigurgeirsson hætti 2018 og fór til annarra starfa. Hún segist vilja leggja sitt að mörkum til að gera landbúnaðinn ,,öflugri og sterkari í samfélaginu. Guðrún er með kennaramenntun og er fyrsta konan til að veita Bændasamtökunum forystu, rekur sauðfjárbú og stundar ferðaþjónustu á bænum Svartárkoti í Bárðardal í Suður Þingeyjarsýslu.
Á bls. 4 er sagt frá því að kosinn hafi verið nýr formaður félagsskaparins ,Samtaka ungra bænda'sem samþykktu kröfulista um ,,nýliðunarstuðning auk endurskoðunar um þann sama stuðning og eflingu rannsóknarstarfs í landbúnaði. Þá vilja þeir að komið verði í veg fyrir ,,uppkaup auðmanna á jörðum, fjölgað verði plássum í Landbúnaðarháskólanum og að lokum krefjast þeir þess að stjórnvöld berjist gegn sýklalyfjaónæmi.
Það er síðan í leiðara blaðsins (sem formaðurinn ritar), að málefni B.Í. eru tekin til umfjöllunar og þar kemur fram að tekjur samtakanna hafi minnkað um rúman þriðjung frá því sem var á meðan hið ólöglega ,,búnaðargjald var innheimt. Segir að um sé að ræða úrlausnarefni sem finna verði lausn á, því: ,,það er ekki ókeypis að reka öfluga hagsmunabaráttu. Slagkrafturinn verður mun meiri ef við stöndum þétt saman.
Svo segir þar og er vafalaust rétt metið. En sé það niðurstaðan, þá verða menn líka að vera opnir fyrir því að gera Bændasamtökin aðlaðandi sem hagsmunagæslusamtök fyrir þá sem eru í landbúnaði. Það er auðvelt að halda því fram að svo sé ekki, nema þá fyrir rúmlega eina búgrein.
Aðsend grein er í blaðinu eftir Guðna Ágústsson fyrrverandi landbúnaðarráðherra og er á bls. 33. Greinina finn ég ekki á vef blaðsins, en tæpast er það ofsagt að hún sé þung ádeila á hvernig komið er fyrir Bændasamtökunum. Guðni telur að bændur verði að finna samtökum sínum nýjan farveg líkt og fyrirtæki í sjávarútvegi hafa gert og stofna það sem hann kallar ,,Samtök félaga og fyrirtækja í landbúnaði.
Gera má ráð fyrir að Guðni sé með í huga þá stöðnun og innbyggðu skekkju sem er innan Bændasamtakanna. Skekkju sem stafar af því að samtökin hafa ekki breyst í takti við breytta tíma.
Það er liðin tíð að lambakjöt sé étið alla þá daga sem ekki er ýsa á íslenskum heimilum og það má meira að segja sjá það birtast í þeim tölum sem birst hafa á síðum Bændablaðsins.
Íslenskir neytendur vilja fjölbreytni og hafa tileinkað sér siði annarra þjóða; neyta margra kjöttegunda auk grænmetis af ýmsu tagi.
Þessa sér í engu stað hjá B.Í. og uppbygging samtakanna miðast við fortíðina. Ekkert tillit er tekið til markaðshlutdeildar búgreina á markaði við val á fólki í trúnaðarstöður. Allt miðast við regluna ,,hver maður eitt atkvæði og engu skiptir hvað að baki býr, né hverra hagsmuna er að gæta. Og svo dæmi sé tekið, þá á búgreinin sem framleiðir og selur mest af kjöti á markaðnum einn fulltrúa á Búnaðarþinginu sem nú fer senn að koma saman, en kindakjötsframleiðendur fjölmarga. Sama gildir um svínakjötsframleiðendur og nautgriparæktin og garðyrkjan, né aðrar búgreinar eru ekki ofaldar heldur á þessum fjárhúsgarða. Allt miðast við fjölmennustu greinina: Sauðfjárræktina.
Guðni segir bændasamtökin vera fjárvana og illa komin félagslega, fyrrverandi formaður sé flúinn og að núverandi megi sig ekki hræra og að Sigurði Eyþórssyni hafi verið falið það hlutverk að annast útför Bændasamtakanna!
Hér er kveðið fast að orði og hreint ekki ólíklegt að ráðherrann og þingmaðurinn fyrrverandi hafi hitt naglann á höfuðið og að senn muni finnast annað og nútímalegra form fyrir samtökin og að þau verði þá eins og hann stingur upp á:
,,Samtök félaga og fyrirtækja í landbúnaði.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:08 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.