Hringtorgið, þjóðin og landið.

Guðmundur Gunnarson bæjarstjóri Ísafjarðar komst svo að orði í viðtali í Silfrinu (19/01/2020), þegar hann vék að gagnrýni sem oft dynur á Vestfirðingum, að þeir sem þar færu, væru ,,komin úr tengslum við náttúruna" og ,,væru á hringtorgi borgarsamfélagsins".

Nokkuð til í því og vel að orði komist!

Vestfirðingar þurfa að lifa af miðunum, landinu og ýmsu öðru líkt og annað fólk í þessu landi, hvort heldur sem búið er í borg eða þorpi, bæ eða sveit.

Það vill gleymast og gjáin milli þéttbýlis og dreifbýlis og þar með taldir þéttbýliskjarnar ,,út á landi", virðist hafa breikkað og hafi hún ekki gert það, þá hefur hún að minnsta kosti breyst.

 

Fyrir fáum árum fór ég í ferð um Vestfirði og dáðist að fegurð þeirra og því hve mikið hefur verið gert til að fegra og snyrta bæjarfélögin sem ég kom til. Þar var tekið vel á móti gestum og auðfundið að maður var velkominn.

Þegar þeir sem ,,komin eru úr tengslum við náttúruna" koma og njóta landsins þá eru þeir velkomnir. Það verður tekið vel á móti þeim, og þannig er það líka á hinn veginn, að þegar við fólkið utan af landi bregðum okkur til þéttbýlisins við Faxaflóa, þá er og verður tekið vel á móti okkur.

Það er m.a. vegna þess að við erum þjóð og þjóð er allskonar og samanstendur af margvíslegu fólki. Fólki sem býr við breytileg kjör og aðstæður og er heild: Þjóðfélag.

Þegar ég var barn og var sendur í sveit heyrði ég stundum, af sumum, illa talað um ,,fólkið á mölinni". Sagt var að það væri verra en annað fólk, og þar að auki ríkt!

Ég þekkti ekki svoleiðis fólk og skildi ekki umræðuna.

Ég held að við ættum að stefna að því að virða hvert annað og landið sem við búum í, hvar sem við búum.

Að því sögðu vil ég minna á, að Vestfirðingar þurfa raforku og að raforka fæst með því að virkja krafta náttúrunnar á hagkvæman hátt. Þeir þurfa líka, líkt og aðrir, atvinnu af ýmsu tagi og þar á meðal af fiskeldi.

Þjóð sem telur það sjálfsagt, að framleiða matvæli til sölu á erlendum markaði til ríkra landa áratugum saman og selja með umtalsverðu tapi, ætti að líta það jákvæðum augum að framleiddur sé eldisfiskur í hreinum íslenskum sjó til sölu til annarra landa með hagnaði, eða með öðrum orðum:

Taka því fagnandi að fólkið í landinu vilji bjarga sér og skapa sér atvinnu úr því sem það hefur og nýta sé það sem landið og hafið býður upp á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband