Miðhálendisþjóðgarður

Í Dagskránni fréttablað Suðurlands (15/01/2020) eru tvær greinar eftir sveitarstjórnarmenn. Önnur eftir Helga Kjartansson oddvita Bláskógabyggðar og hin eftir Sæmund Helgason sveitarstjórnarmann á Höfn. Sú fyrri ber yfirskriftina ,,Ógnanir miðhálendisþjóðgarðs“ en hin ,,Hvaða þýðingu hefur miðhálendisþjóðgarður fyrir Sunnlendinga.

Ólík sjónarmið koma fram í greinunum. Helgi geldur varhug við stofnun þjóðgarðsins en Sæmundur finnur áformununum flest til ágætis.

Förum yfir nokkur atriði.

Helgi bendir á að þjóðin hafi aldrei verið spurð um hvort hún vildi að miðhálendi Íslands verði tekið undir þjóðgarð, heldur hafi þvert á móti verið tekin ákvörðun af ,,fáum einstaklingum“ um að slíkur þjóðgarður yrði að veruleika. Þjóðarður sem taki yfir um 40% af landinu.

Síðar getur hann þess að ,,[…] við séum nú öll að hugsa um [náttúruvernd] alla daga og passað hefur verið vel upp á [það] á hálendinu í gegnum aldirnar með umsjón heimamanna.“

Óhætt er að taka undir að þjóðin hefur aldrei verið spurð um hvort hún vilji friðlýsa tæpan helming landsins og taka undir þjóðgarð. Ekki er hægt að fullyrða um hver niðurstaða af slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu yrði. Vonandi yrði niðurstaðan sú, að innan slíks þjóðgarðs mætti, svo dæmi sé tekið, byggja nauðsynlegar virkjanir þjóðinni til heilla. Áríðandi væri líka að friðlýsingunni fylgdi friðun fyrir ágangi sauðfjár og trúverðug áform um uppgræðslu hálendisins. Það er ekki trúverðugt að segjast vilja friða í öðru orðinu, en segja í hinu að friðunin taki ekki til beitarafnota. Gildir þá einu hvort heldur slíku er haldið fram af oddvita, ráðherra eða einhverjum öðrum.

Öll munum við hvernig fór fyrir ,,þjóðargjöfinni“ sem átti að græða og bæta það sem búið var að skemma og rányrkja.

Helgi kemur víða við í grein sinni og nefnir svo dæmi er tekið, þá makalausu stöðu sem komin er upp varðandi ,,endurbætur á Kjalvegi“, sem möppu- og stofnanaveldi í nafni Skipulagsstofnunar komst að niðurstöðu um, að þyrfti að fara í umhverfismat.

Þar er um að ræða gott dæmi um hvert við erum komin í viðleitninni til að skaffa atvinnu fyrir fólk sem telur sig hafa burði til að hafa vit fyrir almennum óvitum þjóðarinnar, þegar kemur að framkvæmdum hvers konar. Er þá sama hvort um er að ræða nauðsynlegar breikkanir á hringvegi landsins eða lagfæringar á fjallvegum: allt fer í hnút vegna inngripa frá stofnunum sem ráðamenn hafa í góðum tilgangi komið á fót; hafa ekki gert sér grein fyrir að viðkomandi stofnun yrði til að drepa í dróma flest sem til framfara horfði.

Helgi sér fyrir sér að í framtíðinni geti svo farið að ,,landeigendur [komi til með að þurfa] að sanna eignarhald á sínum bújörðum“ og óttast að ekki verði mikið gefið fyrir afsöl og kaupsamninga.

Í niðurlagi greinar sinnar kemst oddvitinn að þeirri niðurstöðu að hálendið sé best varðveitt hjá heimamönnum. Það verður samt að segjast eins og er, að ekki styður umgengni ,,heimamanna“ (sauðfjárbænda) um hálendið við þá skoðun. Umgengni sem stunduð hefur verið með fullu samþykki sveitarstjórna þeirra sveitarfélaga sem í hlut eiga.

Þar þyrfti að breyta um stefnu af hálfu sveitarfélaganna og því miður eru litlar líkur til að það verði gert.

Ekki stendur til að friða hálendið fyrir beit samkvæmt því sem fram hefur komið varðandi væntanlega friðlýsingu. Stefnan er að friðlýsa landið fyrir nauðsynlegum framkvæmdum en ekki fyrir óþörfu beitarálagi. Uppgræðsla verður samt ekki unnin með árangri nema með friðlýsingu fyrir beit sauðkinda.

Í sama blaði má líka finna grein eftir sveitarstjórnarmann á Höfn. Sá telur friðlýsingaráform ráðherra til framfara horfa og bendir á að ef áformin verði að veruleika muni væntanlega tugir háskólaborgara fá vinnu við þjóðgarðinn.

Auk þess sem hann bendir á að í Vatnajökulsþjóðgarði sé leyfð hreindýra- og fuglaveiði og sauðfjárbeit.

Þar er sem sagt ekki verið að friða dýr og fugla, né gróður og telst harla gott!

Er ekki eðlilegt að spyrja, til hvers þessi leiðangur sé farinn?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband