Ólíku saman að jafna.

Samkvæmt því sem lesa má í í bókinni ,Halaveðrið mikla' eftir Steinar J. Lúðvíksson, fórust 74 sjómenn, þar af 68 íslenskir í Halaveðrinu 1925.

Fleiri munu hafa farist í þessu óveðri, sjómenn annarra þjóða sem voru við veiðar og sem lentu í þessu sama veðri.

Fimm til viðbótar urðu úti og þar af voru tvö börn.

Það þarf vart geta þess hvílíkt högg hér var um að ræða fyrir fámenna þjóð. Þetta voru aðrir tímar og veðurspár ekki eins langt komnar og við búum við í nútímanum.

_ _ _

 

Í óveðrinu sem gekk yfir fyrir nokkrum dögum varð það hörmulega slys, að ungur maður fórst af slysförum þegar hann var að hjálpa til við að hreinsa krapastíflu við rafstöð.

Mikil mildi er að ekki varð meira manntjón í því veðri og er þar helst um að þakka framförum sem orðið hafa í gerð veðurspáa. En líka betri skipum og í aðbúnaði hvort sem litið er til lands eða sjávar.

Í veðrinu sem gekk yfir landið nýlega varð tjón á verðmætum (auk slyssins sem varð við rafstöðina), kýr voru ekki mjólkaðar og hross urðu úti o.s.frv. og af þessu getum við lært.

Við vitum að ekki er hægt að stjórna veðrinu en það er hægt að vera betur búinn undir veðuráhlaup af þessu tagi.

Víða hagar svo til, að hægt er að koma lágspenntu dreifikerfi rafveitna í jörð. Það er hægt að gera, en það leysir engan veginn allan vanda eins og sumir hafa látið í veðri vaka í umræðunni.

Þeir sem búa við slíkt rafkerfi vita að þrátt fyrir jarðstrengi kemur fyrir að taka þarf strauminn af vegna viðhaldsvinnu.

Til að bregðast við því, þurfa þeir sem eru með viðkvæman rekstur að búa yfir varaafli sem er nægjanlegt til að uppfylla nauðsynlegar þarfir.

Það gildir um rekstur jafnt í dreifbýli sem þéttbýli og jafnt um hátæknibúskap sem heilbrigðisstofnanir svo dæmi séu tekin.

_ _ _

 

Þegar öld véltækni og togara gekk í garð, höfðu menn mikla trú á hinni nýju tækni og töldu jafnvel að togararnir gætu staðið af sér öll veður. Reyndin varð önnur og eftirá er auðvelt að dæma, en hafa verður í huga að samanborið við skipakostinn sem búið hafði verið við, voru hin nýju skip bæði traust og öflug.

Það sýndi sig að þó sum stæðu af sér veðrið, löskuð og illa farin eftir ógnarátök, þá mátti ekki mikið útaf bregða og önnur hurfu í hafið með allri áhöfn.

Við ráðum sem sagt seint við allt sem náttúruöflin taka sér fyrir, en augljóslega má bregðast við straumrofi rafmagnsveitna og þó segja megi að varrafstöðvar geti líka brugðist, þá auka þær vissulega öryggi rekstrarins til muna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband