27.11.2019 | 09:58
Framtíðarmúsik úr fjórðu víddinni?
Þegar ég var drengur lékum við krakkarnir okkur með umhverfisvænar flugvélar. Ein gerðin var þannig að henni var skotið upp með teygju og er hún var komin í loftið sveif hún dálitla stund fyrir þeirri hreyfiorku sem við gáfum henni við skotið, en svo kom að því að hún sveif til jarðar og lauk þannig fluginu.
Annarri gerð man ég eftir sem var þannig, að á meðan flugvélinni var haldið kyrri var snúið upp á teygju, sem föst var inni í vélinni í annan endann en hinn endi teygjunnar var fastur við skrúfu flugvélarinnar. Kúnstin var sú að sleppa hvoru tveggja jafnt, skrúfunni og flugvélinni og árangurinn var sá að hún fór sem hringsnúandi hvirfilspjald skamman spöl og fluginu lauk.
Enn ein gerð var þannig að spaðar sem festir voru á hring að utanverðu og síðan í miðpunkt voru fengnir til að hringsnúast og vegna skurðar sem var á spöðunum fór svo að þeir skrúfuðu sig upp í loftið ef vel tókst til, dönsuðu þar smá stund og féllu síðan til jarðar, þ.e.a.s. gólfið ef athöfnin fór fram innandyra.
Fjórða fyrirbrigðið var pappírsskutla sem flestir munu kannast við og var kastað af stað með handafli. Flaug ágætlega en lenti sem hinar gerðirnar þegar orkan sem henni var gefin í upphafi flugsins var til þurrðar gengin.
Af þessu lærðum við þau sannindi að orkan sem lagt er upp með getur ekki nema í takmarkaðan tíma dugað til að yfirvinna mótstöðu loftsins og þyngdarkraft Jarðar.
Í Morgunblaðinu sem kom út þann 25/11/2019 mátti lesa aðsenda grein eftir hótelhaldara og flugmann. Greinin fjallaði um framtíð flugs og aðallega hvernig flugvélar framtíðarinnar yrðu knúnar um loftin blá.
Samkvæmt því sem þar sagði, mun flug framtíðarinnar felast í rafmagnsflugvélum. Ber það vel saman við það sem samgönguráðherra hefur haldið fram, en að hans sögn, munu Íslendingar verða frumkvöðlar í þróun slíkra véla.
Hvorki meira né minna.
Nútímaflugvélar fara hlaðnar af eldsneyti í loftið eins og allir vita, en það munu framtíðarflugvélarnar ekki gera og ekki nóg með það, sú nýjung munu vera rétt handan við hornið bæði í tíma og rúmi.
Verða þær víst lausar við eldsneytisþungann þegar rafmagnið verður innleitt: Því eins og allir vita hefur rafmagnið enga þyngd, er bara óþægilegt að koma við!
Rafgeymar framtíðarinnar munu verða léttir sem fis og nánast búnir til úr engu, ef ekki minna en það. Og eins og fyrr sagði hefur rafmagnið enga þyngt, er einungis flutningur rafeinda úr einu í annað og er gott að geta glaðst yfir að búið sé að finna upp þyngdarlausa eða a.m.k. þyngdarlitla rafgeyma.
Líka má ímynda sér að orkan komi til með að berast til flugvélanna þráðlaust líkt og útvarpsbylgjur og þá vonandi á truflanalausan hátt.
Verði sá möguleiki ofaná að orkan verði geymd þyngdarlaus og rúmtakslaus, þá er það vitanlega enn betri kostur. Og í farvatninu eru örugglega öflugir rafmótorar sem verða léttari en ekkert og fyrirferðarlitlir eftir því.
Þeir munu á undraverðan hátt þeyta flugvélum framtíðarinnar um loftin blá án alls sótspors og annarra leiðinda.
Mér leið við lesturinn sem ég væri kominn aftur til bernskunnar og farinn að lesa bók um uppfinningamanninn Tom Swift. Þeir sem muna eftir honum vita að honum var ekkert er ómögulegt og hefði hann vafalaust farið létt með að smíða flygildi hinnar nýju gerðar.
Jafnvel léttari en ekkert.
Í ræðu samgönguráðherrans, sem hann flutti fyrir nokkrum mánuðum, mátti heyra svipaðan boðskap og ekki nóg með það, ráðherrann spáði því að Íslendingar yrðu forystuþjóð í innleiðingu rafflugvéla í farþegaflugi og þá væntanlega vöruflutningaflugi líka.
Við sem fylgjumst með, bíðum spennt eftir framhaldinu, sem engin leið er að sjá hvert verður. Eilífðarvélin er vafalaust rétt handan við hornið og eflaust til muna fullkomnari en reiknað var með að hún yrði í árdaga.
Sjá má fyrir sér, að auk þess að ganga fyrir sjálfri sér muni sú vél framleiða eitt og annað úr engu.
Möguleikarnir eru svo sannarlega margir og gott að eiga að, framsýnt fólk sem sér framtíðina björtum augum. Yfrið nóg er til af svartsýnisrausandi mannskap, sem fastur er í gömlum og hefðbundnum lausnum; horfir ekki til framtíðar og enn síður til þeirra vídda og sviða sem leysa munu vanda framtíðarinnar, sem er nánast nútíðin.
Gleymum því ekki!
Seint held ég að okkur krökkunum hefði dottið í hug að festa vængi við t.d. þriggja rafhlöðu vasaljós og skrúfu í staðinn fyrir peruna, í þeirri von að úr yrði ,,flugvél".
Til þess höfðum við ekki hugmyndaflug, en nú eru komnir fram a.m.k. þrír áhugamenn um flug sem kunna ráð við þeim tregðulögmálum sem við réðum ekki við. Svona fer öllu fram og því er full ástæða til að horfa björtum augum til framtíðarinnar.
Ekki bara hvað varðar flug, heldur um allt annað því bjartsýnina má ekki vanmeta.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.