21.11.2019 | 18:11
Markaðshlutdeild og fleira gott.
Hægt er að lesa ýmislegt í Bændablaðinu og meðal þess sem hægt að sjá þar er hvernig hugtakið ,,markaðshlutdeild" er notað á óvenjulegan hátt.
Flestir munu skilja hugtakið sem svo, að það taki yfir þá hlutdeild sem viðkomandi vara hefur á markaði.
Í frásögn ritstjórans er sem hugtakið nái yfir framleitt magn en ekki selt magn.
Fram kemur að salan síðustu 12 mánuði skiptist þannig, að selt er rúmum 2.723 tonnum meira af alifuglakjöti en af kindakjöti. Alifuglakjötið sem framleitt var seldist á innlendum matvörumarkaði.
Það gerði kindakjötið hins vegar ekki og um þriðjungur þeirrar framleiðslu var fluttur á erlenda markaði. Ekki er getið um innflutning í fréttinni. Þetta kallar blaðið jafna markaðshlutdeild.
Minnugir muna að allt ætlaði á hliðina vegna innflutnings á nokkrum lambahryggjum frá Nýja Sjálandi að áliðnu síðasta sumri. Ástæða innflutningsins mun hafa verið að vöruna skorti af ástæðum sem ekki hafa verið skýrðar.
Það jafnaði sig hins vegar snarlega þegar innflutningurinn vofði yfir. Komu þá í ljós birgðir í frystum sem enginn virtist hafði vitað um (!) og var lokað fyrir innflutninginn á þann hátt, að niðurfelling tolla var dregin til baka.
Útflutningur á kindakjöti virðist fljótt á litið vera góður viðskiptamöguleiki, en svo er þó í rauninni ekki.
Eftir því sem segir í blaðinu er flutt út sem svarar mismuninum á framleiddu magni af kindakjöti þ.e. 9710 tonnum og því sem selt er innanlands sem er um 6582 tonn og er þá um 3128 tonn.
Ríkissjóður greiðir, eins og kunnugt er, í raun góðan hluta af því verði sem kindakjötið er selt fyrir á innlendum markaði. Og neytendur greiða yfir búðarborðið aðeins hluta þess sem varan kostar, afganginn greiða þeir með sköttum. Það er ekki einstakt að framleiðsla kindakjöts sé ríkisstyrkt, en að hún sé styrkt til útflutnings er vist ekki algengt.
Af þessum útflutningi skapast gjaldeyristekjur, eða hvað?
Þær eru búnar til með starfsemi ríkisrekinnar útflutningsskrifstofu (Icelandic Lamb) sem ,,selur" kjötið.
Til viðbótar koma síðan ýmsar greiðslur úr ríkissjóði og niðurstaðan verður því: Að allir tapa, nema skrifstofan fyrrnefnda, flutningsaðilar og síðan erlendir viðskiptaaðilar og hinir erlendu neytendur afurðanna.
Ekki má síðan gleyma hálendi landsins, það tapar. Sportið við búgreinina felst nefnilega í því að ,,reka féð á fjall" eins og það heitir, til að beita því þar yfir sumarið og smala að hausti. Eins og flestir vita er það að mjög takmörkuðu leyti sem hálendið er hæft til beitar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Bændablaðið skilur ekki markaði, enda eru bændur vitanlega á móti nýfrjálshyggju.
Þorsteinn Siglaugsson, 21.11.2019 kl. 22:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.