Framleiðnisjóður eða ekki?

Framleiðnisjóður hefur verið til umræðu undanfarið vegna áforma landbúnaðarráðherra um breytingar sem stefna að því að núverandi sjóður verði lagður niður og í stað hans stofnaður nýr sem sameini núverandi Framleiðnisjóð landbúnaðarins og AVS rannsóknarsjóð í sjávarútvegi.

Líkt og við mátti búast ríkir lítil hrifning af þessum áformum hjá Framleiðnisjóði sem er lítill sjóður, til orðinn í samningum milli ríkisins og Bændasamtakanna. Íslenska ríkið leggur sjóðnum til fjármuni. Ekki er svo að sjá sem ríkisvaldið hafi síðan mikið með að gera hvernig þeim fjármunum er ráðstafað.

Þegar flett er ársskýrslu Framleiðnisjóðs fyrir árið 2018 töflu 1, kemur ýmislegt áhugavert fram.

Úthlutun styrkja vegna ,,atvinnueflingar og nýsköpunar“ fór fram tvisvar á árinu, stjórnin hélt fimmtán fundi og greint er frá því að sjóðurinn hafi tekið á móti 88 erindum og afgreiddi þar af 63 ,,með fyrirheiti um fjárstuðning“. Í töflu 1 er skrá yfir framlög sem samþykkt voru á árinu 2018 og út úr henni má lesa eftirfarandi:

Opinbera hlutafélagið MATÍS fær: 18.250.000 kr.

Skógræktin:  6.100.000 kr.

Landbúnaðarháskóli Íslands: 14.100.000 kr.

Háskóli Íslands:  3.000.000 kr.

Bændasamtök Íslands:  7.500.000 kr.

Landgræðsla ríkisins:  3.000.000 kr.

Samband garðyrkjubænda:  1.500.000 kr.

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins:  6.311.500 kr.

Hólaskóli:  2.300.000 kr.

Fjölbrautaskóla Suðurlands:  2.000.000 kr.

Þá er veitt til námsstyrka:  3.000.000 kr.

Samtals (hálf- og alopinberar stofnanir og félagasamtök): 67.061.000 kr.

Til nýsköpunar og eflingar á bújörðum er síðan ráðstafar: 64.391.000 kr.

Samtals eru styrkir úr sjóðnum: 133.702.500 kr.

Fram kemur að sjóðurinn úthluti styrkjum ,,af þróunarfé sauðfjárræktarinnar 2018“ upp á rúmar 38 milljónir og ,,þróunarfé nautgriparæktarinnar“ um 6 milljónum ,,samkvæmt ákvæðum búvörusamninga og reglugerðar nr. 1180/2017“.

Einnig að garðyrkjan fái ,,styrk[i] af þróunarfé garðyrkjunnar 2018“ rúmar 42 milljónir og einnig er um að ræða styrki frá ,,Markaðssjóði sauðfjárafurða vegna átaksverkefnis um aukið virði sauðfjárafurða 2018“ til ,,Breiðdalsbiti ehf., Feed the Viking ehf., Matís ohf. og Bone and Marrow ehf. samtals 5.000.000 kr.

Eignir sjóðsins samkvæmt efnahagsreikningi eru um 311 milljónir og eru innistæður í lánastofnunum. Starfsmaður er einungis einn og í stjórn sitja fimm og eru þrír skipaðir án tilnefningar en tveir aðalmenn eru tilnefndir af Bændasamtökum Íslands.

Stjórnarmenn eru víða að af landinu og því hefur verið farin sú leið að halda 10 af fimmtán fundum ársins sem símafundi. Sjóðurinn starfar samkvæmt Lögum 89 frá 1966 með seinni tíma breytingum um Framleiðnisjóð landbúnaðarins. Hlutverk sjóðsins er ,,að veita styrki og lán til framleiðniaukningar og hagræðingar í landbúnaði. Styrki úr sjóðnum má aðeins veita til einstakra bænda, vinnslustöðva, ræktunarsambanda og vísindastofnana“.

Ljóst má vera að menn þurfa að teygja sig nokkuð langt til að komast að því að Bændasamtök Íslands falli undir þessa skilgreiningu.

Hins vegar getur verið að Skógræktin, Matís ohf., Landbúnaðarháskólinn, Háskóli Íslands, Landgræðslan og Fjölbrautaskóli Suðurlands falli undir greininguna og jafnvel Rannsóknarmiðstöð landbúnaðarins. Starfsmenntasjóður Bændasamtakanna fær framlag eins og áður hefur komið fram upp á eina og hálfa milljón og vel kann að vera að þar hafi farið fram einhverskonar vísindastarfsemi.

Hvers vegna er verið að setja fram þessa punkta kann einhver að spyrja? Er þetta ekki bara lítill og sætur sjóður sem lítið munar um að halda gangandi á kostnað ríkissjóðs?

Vel kann það að vera, en það má með fullum rétti velta því fyrir sér, hvort að þörf sé fyrir stofnun af þessu tagi og ef svarið er jákvætt, hvort hún eigi að vera sjálfstæð eða deild innan annarrar stofnunar svo sem fyrirhugað er að verði af samkvæmt tillögum landbúnaðarráðherra.

Meðferð fjármuna almennings er vandasöm og þó að hér verði því ekki haldið fram að illa hafi verið farið með fjármuni sjóðsins, þá er það niðurstaða þess sem þetta ritar er að hugmyndir ráðherrans séu réttmætar og að ástæðulaust sé að hneykslast á orðum sem hann mun hafa haft um sjóðinn, svo sem að þar megi finna sitt hvað skrautlegt (ef það er þá rétt eftir haft!).

Sé hægt að einfalda fyrirkomulag þessara mála og koma sjóðnum fyrir sem deild í fyrirhuguðum Matvælasjóði, þá ættu menn að geta sæmilega við það unað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband