1.11.2019 | 14:05
Mjólkin, smjörið og rjóminn og ritdeilan á Kjarnanum.
Undanfarna daga hefur mátt fylgjast með ritdeilu á vefritinu Kjarnanum. Þar deila annarsvegar Þórólfur Matthíasson prófessor og hins vegar Sunna Gunnars Marteinsdóttir samskiptastjóri Mjólkursamsölunnar.
Deilan hófst með því að Þórólfur setti fram spurningu um hvort um væri að ræða offramleiðslu á mjólk og okur í skjóli opinberrar verðlagningar? https://kjarninn.is/skodun/2019-10-28-offramleidsla-mjolkur-og-okur-i-skjoli-opinberrar-verdlagningar/
Sunna svaraði að bragði með grein daginn eftir (29/10/2019) að grein Þórólfs birtist undir yfirskriftinni ,,Smjörklípa Þórólfs" https://kjarninn.is/skodun/2019-10-29-smjorklipa-thorolfs/.
Þar næst svaraði Þórólfur með grein daginn þar á eftir, sem hann kallaði ,,Þeir sletta skyrinu sem eiga það" https://kjarninn.is/skodun/2019-10-30-their-sletta-smjorinu-sem-eiga-thad/.
Sunna svaraði að bragði með ,,Áfram með smjörið" https://kjarninn.is/skodun/2019-11-01-afram-med-smjorid/!
Hvort framhald verður á þessari deilu og hvort grein sem birtist á sama miðli þann 31. sama mánaðar, undir yfirskriftinni ,,Heilagar kýr og bíllaus lífsstíll" tilheyrir þessum skoðanaskiptum og sem ég hef ekki kynnt mér, er satt a segja fremur ólíklegt!
Sú var tíð, að sem ungur maður átti ég mér þann draum að verða kúabóndi; var kominn með góða jörð og allt sem þurfti og meira að segja viðskiptavin til að kaupa afurðirnar í 16 km. fjarlægð og höfuðborgina handan heiðar.
Af dularfullum ástæðum, sem ég hef ekki enn getað skilið svo óyggjandi sé, tókst ekki að sannfæra stofnun sem sá um lánveitingar til uppbyggingar í sveitum, um að jörðin væri brúkleg til þeirra nota og svo fór, að maður snéri sér að öðru.
Nú sé ég að þetta er svo sannarlega efnilegur atvinnuvegur, sem framleiðir auk smjörsins og rjómans og ostanna, sem ég get ekki verið án, efni í glæsilegar og eftir því líflegar ritdeilur.
Að undanförnu hefur verið hægt að fylgjast með uppbyggingu þessarar búgreinar. Byggð hafa verið það sem Bændablaðið kallar ,,hátæknifjós" (verksmiðjubú ef um væri að ræða alifugla eða svínarækt!) og framtíðarhorfur eru frekar bjartar að maður hefur talið.
Hvort innlegg kúabænda vex í réttu hlutfalli við skrif greina í ritdeilu af þessu tagi er ekki gott að segja. En fjörið er mikið og allar líkur til að smjörið, sem aðallega er deilt um, verði löngu bráðnað á pönnu, í potti, ofni, eða maga áður en fyrir endann sér á deilu þeirri sem fram fer þessa dagana.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:43 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.