29.10.2019 | 11:07
Breytingar, hefð og helgi.
Í Fréttablaði dagsins er pistill sem ber yfirskriftina ,,Frá degi til dags".
Í Þjóðviljanum (dagblaði sem ekki hefur komið út í mörg ár), var daglegur pistill með sömu yfirskrift, sem Magnús heitinn Kjartansson skrifaði af mikilli snilld.
Í pistli Fréttablaðsins er fjallað um ríkisstjórnina og Framsóknarflokkana þrjá sem í henni sitja og ekki nema von að svo sé tekið til orða; flokkarnir þrír eru samstiga um flest og vilja helst engu breyta frá því sem það er og hefur verið og mun verða.
Það er helst að umhverfisráðherrann sprikli og ,,umhverfist" ef hann fréttir af einhverjum framkvæmdum sem ef til vill og kannski, gætu átt sér stað í framtíðinni.
Ekki má velta við steini, nema vísindalegar rannsóknir hinnar ofurmönnuðu Umhverfisstofnunar, geti sýnt fram á að steinvalan hafi oltið um sjálfa sig hvort eð var deginum áður.
Það má þó planta trjám en ekki má tryggja þeim friðun fyrir fénaði vegna ,,helgi" sem ríkir um lausagöngu búfénaðar og því má náttúrulega ekki breyta.
Sama gildir um hálendisbeit, um hana gildir hefð og gott ef ekki ,,helgi" og því má vitanlega ekki breyta.
Og landið fýkur burt og því má alls ekki breyta, því fyrir því er hefð.
Verði einhverju breytt er það vegna þess að það hefði breyst hvort sem er, en ekki vegna þess að um sé að ræða breytingu sem hrundið er í framkvæmd af þörf.
Ekkert er samt án undantekninga:
Í ríkisstjórninni sitja nokkrar konur og þær nudda ýmsu í rétta átt, líklega þrátt fyrir karlana sem með þeim sitja en ekki vegna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.