Vinstri græn(metis) neytendur funda.

 

Vinstri græn komu saman til að ráða ráðum sínum fyrir um viku síðan og auglýstu að ekki yrði etið á samkomunni kjöt og hugsanlega hafa fundargestir snætt grænmetisrétti í staðinn.

Þetta mun hafa verið gert til að kynna viðkomandi flokk sem umhverfisvænan, og að það lýsti sér sem svo, að þar á bæ neyttu menn ekki dýraafurða.

Á fundinn var samt kallaður til leiks formaður Félags sauðfjárbænda, væntanlega til að flytja mönnum boðskapinn um hve umhverfisvænt það væri að framleiða kindakjöt - sem fundargestir gættu þess vel og vandlega að neyta ekki á meðan á fundinum stóð.

Kindakjöt er sem kunnugt er framleitt af miklum krafti hér á landi og það svo, að framleiðslan er að sumra mati allt að tvöföld innanlandsþörf.

Það er að hluta til gert með hálendisbeit á gróðurníddu landi. Umframframleiðslan er síðan flutt til annarra landa og ,,seld" fyrir lítið og mismunurinn greiddur úr ríkissjóði.

,,Ungir bændur" voru kallaðir fram á sviðið, væntanlega ferskir í fræðunum um hve vel það  kæmi út til kolefnisjöfnunar að haga kindabúskap með þessum hætti.

Engum fregnum fer af því hvort viðkomandi fulltrúar hafi hrakið rök sem fram hafa komið um að íslensk framleiðsla á vörunni sé svo út úr kolefniskortinu, að skömminni skárra væri að sækja hana yfir hálfan hnöttinn til Nýja Sjálands.

Reyndar mikið skárra!

Þetta gerist allt á sama tíma og fréttir berast af því að tilfinningalíf plantna - lífsformsins sem hinir Vinstri grænu fundargestir sporðrenndu sér til næringar - hafi verið stórlega vanmetið svo sem sjá má í þessari umfjöllun: Lifandi vísinda.

Hugsanlega hefði verið eins gott fyrir hina umhverfisvænu og vinstri grænu fundarfulltrúa að halda sig við fjölbreytnina og leyfa náttúrunni að njóta vafans.

Vafinn er víst það sem einna fyrst lætur undan þegar trúin tekur völdin og það mun hafa gerst á þessari samkomu. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband