17.10.2019 | 14:57
Hin jákvæðu áhrif
Þessar myndir tók ég í fyrradag og er séð til norðurs af þjóðveginum skammt fyrir austan Selfoss
Um er að ræða tvö afgirt hólf sem liggja saman, að öðru leiti en því, að vegur og girðing skilja á milli.
Á þeirri efri er hólf sem er beitt kindum en á þeirri neðri hólf sem ég man ekki til að hafa séð kindur á.
Eins og sjá má þá er hólfið sem ekki er beitt af kindum talsvert gróið af trjágróðri sem náð hefur sér upp með tímanum. Ekki veit ég til að þar hafi verið plantað trjám.
Dæmi um þetta má víða sjá, og á þeirri leið sem ég fór í gær sáust fleiri dæmi um þetta og það þekkjum við vel, sem búum á þessu svæði og telst það engan vegin fréttnæmt: þ.e. að við hlið fjárbeittra hólfa eru önnur óbeitt af fé sem gróa upp með þessum hætti.
Vegna þess sem við blasir þarna og víðar, áttaði ég mig á því að kannski hefur ónefnd menntamanneskja sem á dögunum hélt því fram að betra væri að rækta trjágróður með sauðfjárbeit og margir hafa gagnrýnt, haft rétt fyrir sér eftir allt.
Trúlega sjáum við hérna hvernig jákvæð áhrif berast frá beitarhólfinu, gegnum girðingarnar og yfir veginn og þaðan inn í óbeitta hólfið og þar birtast áhrifin frá kindunum.
Vegna þessara fjaráhrifa sprettur trjágróðurinn sem aldrei fyrr.
Þetta verður ræktunarfólk að hafa í huga, að hafa kindur í grennd. Það mun auka árangurinn og örva vöxtinn þegar trjáplöntunum er plantað í jörð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.