Kjarkleysi eða raunsæi?

Í Morgunblaðinu í dag (14.10.2019) er sagt frá því að: ,,Til skoðunar er hvort tilefni sé til að óska eftir viðræðum við Evrópusambandið um endurskoðun á þeim tollkvótum fyrir ýmsar kjötafurðir, skyr og osta, sem samið var um þegar samningur milli Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur var gerður fyrir nokkrum árum.“

Árið 2015, í tíð Sigurðar Inga Jóhannssonar sem landbúnaðarráðherra, var samið við ESB um stækkun á tollfrjálsum kvótum fyrir aðallega kindakjöt og skyr. Á móti veitti Ísland tollkvóta, m.a. fyrir nautakjöt, svínakjöt, alifuglakjöt og osta.

Við þessum samningi var varað af hálfu margra bænda og er undirrituðum minnisstætt hve góð samstaða var meðal fulltrúa hinna ýmsu búgreina sem tjáðu sig um málið á fundi sem Búnaðarsamband Suðurlands hélt á Hótel Selfossi.

Þar var reynt að útskýra fyrir ráðherranum að kjötmarkaðurinn væri að stórum hluta ein heild og að væntingar um að aukinn innflutningur á fyrrnefndum kjötvörum yrði til þess að auka veg sauðfjárræktarinnar væru byggðar á sandi. Það væri vegna þess að aukið framboð á erlendum kjöttegundum á íslenskum kjötmarkaði myndi, auk þess að þrengja að þeim kjöttegundum sem um væri rætt, einnig þrýsta kindakjöti af innlenda markaðinum.

Á öll slík rök blés ráðherrann og lét í veðri vaka, að bændurnir sem um málin tjáðu sig á fundinum væru kjarklausir og trúlitlir á möguleika sína.

Vel kann að vera að samkvæmt mælikvarða Sigurðar Inga hafi það verið rétt metið og að við höfum verið kjarklaus, en í þessu tilfelli reyndist kjarkleysið vera raunsæi. Á daginn kom síðar að það var fleira rangt metið af hálfu ráðuneytismanna.

Það hefur nefnilega sýnt sig að enginn markaður sem talandi er um, er fyrir íslenskt kindakjöt í ESB. Neysla þess er lítil og viðskiptaaðilar þar með þessa vöru geta fengið nóg af kindakjöti sem ýmist er framleitt í aðildarlöndum sambandsins eða t.d. frá Nýja Sjálandi.

Samkvæmt því sem fram kemur í umfjöllun Morgunblaðsins er Bretland helsti markaður fyrir kindakjöt innan Evrópusambandsins og eins og við vitum, þá eru þeir í alkunnum leiðangri út úr sambandinu.

Hvort og þó líklega aðallega hvernig, sá skilnaður verður er óljóst. Vel gæti meira að segja verið að þessi helsti markaður fyrir íslenska offramleiðslu verði ekki lengur tollfrjáls, eða eins og segir í blaðinu: ,,fyrirhuguð útganga Breta úr ESB [mun] leiða til þess að tollfríðindi sem samið var um vegna útflutnings á íslenskum landbúnaðarvörum [mun] ekki lengur eiga við um útflutning á Bretlandsmarkað“.

Þá er sagt frá því, að væntingar um sölu á skyri sem framleitt sé á Íslandi hafi ekki gengið eftir og fer þá að verða harla lítið eftir af draumórasamningi núverandi samgönguráðherra.

Að þessu skoðuðu læðist að sú hugsun, hvort ekki hefði verið óhætt að hlusta betur á bændurna kjarklausu og horfast í augu við þá staðreynd: að finna þyrfti stórum hluta kindakjötsframleiðslunnar annan farveg og að sá farvegur vísaði í þá átt, að hætta þyrfti framleiðslu á þeim hluta framleiðslunnar sem ekki væri markaður fyrir.

Til þess skorti ráðherrann augljóslega kjark eða raunsæi árið 2015, og nú er spurningin, hvort núverandi ráðherra sé kjarkmeiri og raunsærri. Ýmislegt bendir til að svo geti verið og fróðlegt verður að fylgjast með því hvernig honum mun ganga að koma vitrænum hugmyndum í gegnum stjórnarflokkana.

Flokka sem allir eru þekktir af öðru en raunsæi í landbúnaðarmálum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband