11.10.2019 | 14:26
Kolefnissporið í sauðfjárræktinni.
Í Bændablaðinu (10/10/2019) svarar Unnsteinn Snorri Snorrason framkvæmdastjóri Landsamtaka sauðfjárbænda, grein eftir Þórólf Matthíasson prófessor, sem birtist í Fréttablaðinu fyrir nokkru. Þeir félagar tókust á í umræðuþættinum Sprengisandi og líklega hefur Unnsteini ekki fundist sem honum tækist nógu vel að smala saman rökum sem héldu í því spjalli.
En um hvað er verið að deila?
Kindin er afkastalítið kjötframleiðsludýr í samanburði við við flest önnur sem hægt er að bera hana saman við og af þeirri ástæðu er hið margumtalaða kolefnisspor hennar mikið á hverja framleiðslueiningu. (Oftast er talað um kjötið í því sambandi, en við vitum að auk þess kemur af lambinu gæran, auk þess sem ærnar gefa af sér ull).
Búskaparhættir hér á landi með sauðfé eru margræddir og þar er einna mest gagnrýnd hálendisbeit á gosbeltinu, auk lausagöngu sem veldur því að sauðfé er beitt á lönd sem sauðfjárbændur eiga ekki; stundum í góðri sátt, en stundum ekki.
Fleira má til taka, eins og ,,gæðastýringu" sem ekki er það sem sagt er, heldur einungis blöff til að ná fram hærri og fjölbreyttari styrkjum úr ríkissjóði.
Þar er komið að enn einu atriði sem mætti bera saman við Nýja Sjáland vilji menn hafa það til viðmiðunar, líka væri hægt að bera saman hve mörg kíló af kjöti eru á móti hverju ársverki við framleiðsluna. Ekki er þetta tæmandi upptalning, langt í frá, en eitthvað lítið eitt í áttina.
Því miður eru ekki miklar líkur á að íslensk sauðfjárrækt komi vel út eftir ítarlegan samanburð af þessu tagi, en þá væri gott að skoða hvað sé hægt að laga og hverju sé hægt að breyta.
Það er, svo dæmi sé tekið, óþarft að framleiða allt að tvö kíló af kjöti fyrir hvert eitt sem hægt er að selja á íslenskum markaði. Gæti ekki verið verið gott að byrja þar, hætta offramleiðslunni og minnka þannig kolefnisspor greinarinnar um helming?
Kindur eru ekki fóðraðar á kornfóðri svo neinu nemur, þannig að væntanlegar endurbætur á þeirri vöru koma greininni ekki til góða.
Við sem viljum eiga kost á lambakjöti verðum að sætta okkur við kolefnisspor sauðkindarinnar, en það er augljóslega hægt að minnka það til muna og bæta í leiðinni afkomu þeirra sem í búgreininni eru.
Offramleiðsla þrýstir niður verði, líka hjá þeim sem treysta á ríkisstyrki. Það hefur verið, og verður eflaust sífellt erfiðara, að sannfæra þingmenn um að veita styrki af almannafé til framleiðslu sem er óþörf: það er að segja, þann hluta framleiðslunnar sem ekki er þörf fyrir á innlendum markaði.
Að haldið sé úti styrkjakerfi á kostnað almennings til tómstundabúskar til einkanota, svo sem gert er, er svo annar þáttur tengdur þessu, sem æskilegt væri að útskýrt yrði í næstu grein í Bændablaðinu (af framkvæmdastjóra Landssamtaka sauðfjárbænda?).
Hvers vegna er nauðsynlegt að gera það?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Nú er það svo að lambið étur gras í úthaga allt sitt líf, gras sem visnar að hausti og fer að gefa frá sér kolefnið sem grasið batt um sumarið, það má halda því fram að lambakjötið sé kolefnisfrí afurð.
Fyrir utan það að óbeitt land fellur í sinu sem minnkar gróðurfar sem þá tekur minna kolefni til sín
mér finnst þetta gleymast í umræðunni.
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 12.10.2019 kl. 11:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.