24.4.2012 | 21:32
Mál til að læra af?
Er hægt að fá sig til að hlæja að því þegar dómur er kveðinn upp yfir manni fyrir eitthvert brot sem hann er talinn hafa framið? Varla. En ef hinum dæmda finnst dómurinn vera sprenghlægilegur? Er þá hægt að hlægja og samgleðjast honum yfir að hafa verið svo einstaklega heppinn að hafa hlotið dóm? Tæplega.
Í gær var kveðinn upp dómur í Landsdómi sem höfðaður var gegn fyrrverandi forsætisráðherra íslensku þjóðarinnar. Hinn dæmdi lét þau orð falla, af því tilefni, að dómurinn væri hlægilegur; frekar óvenjulegt að dæmdir menn tjái sig með þessum hætti, en það gerði hann og hafði vitanlega fullan rétt til þess.
Þó það nú væri, ekki hafði verið dæmt af manninum tjáningarfrelsið, ekki tilfinningahitinn og ekki heldur trúverðugleikinn gagnvart stjórnmálaflokknum sem hann var fulltrúi fyrir. Hann var eingöngu dæmdur fyrir að hafa sýnt andvaraleysi gagnvart hættu sem steðjaði að þjóðinni sem hann var í forsvari fyrir. Það var nú allt og sumt.
Að sögn hins dæmda, var hefð fyrir því sem hann gerði, eða öllu heldur gerði ekki og því afar ósanngjarnt að vera að dæma nokkurn mann fyrir það. Sinnuleysi stjórnenda er sem sé hefðbundið og þar af leiðir, að það er sjálfsagt og eðlilegt og algjörlega ástæðulaust, að vera að fjargviðrast yfir því þó hefðinni sé haldið við.
Flestum finnst innst inni líkast til að Geir H. Haarde sé hinn mætasti maður; ljúfur og notalegur persónuleiki sem gott hljóti að vera að eiga að vini og það er hann örugglega. Ekki ástæða til að efast um það. Á honum var ekki að heyra að dómararnir sem dóminn kváðu upp væru neinir vinir hans. Hafi þeir verið það áður, þá eru þeir það tæpast nú. Frekar að um væri að ræða pólitíska úlfa í dómarahempum, sem notað hefðu tækifærið til að koma pólitísku ,,klámhöggi á hann. Það getur varla talist trúverðug greining á niðurstöðu dómsins, en mun víst verða úr því skorið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.
Fari svo að málið fari í þann farveg er því vitanlega ekki lokið og verður þá enn ein sagan endalausa fyrir okkur Íslendinga til að fylgjast með um ókomna tíð. Gott til þess að vita að við höfum það til að una okkur við á komandi síðkvöldum? Held ekki.
Best af öllu hefði vitanlega verið að málið hefði aldrei orðið til. Frjálshyggjuruglið hefði aldrei orðið að veruleika, Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið eðlilegur lítill smáflokkur eignaaðalsins í þjóðfélaginu, Framsóknarflokkurinn fyrir nokkru útdauður og kominn á safn sögunnar og að aðrir stjórnmálaflokkar þessa lands hefðu starfað af heilindum og að heill þjóðar sinnar án þess að vera sífellt að deila um keisarans skegg.
Þetta er ekki staðan og um það þarf því vart að ræða. Stór hluti þjóðarinnar trúði og treysti forystumönnum flokkanna tveggja fyrir fjöregginu og því fór sem fór. Landið varð nánast stjórnlaust og allskyns óvandaður lýður fékk tækifæri til að láta greipar sópa um allar helstu eigur þjóðarinnar sem voru skrældar innan þar til fátt eitt var eftir annað en hismið eitt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.