Björn að baki Kára

Eins og kunnugt er þá er komin upp sú staða að ESA hefur stefnt Íslandi vegna Icesave skuldbindinganna. Mál þetta hefur verið afar umdeilt meðal þjóðarinnar og síðast fór svo að um 2/3 hlutar alþingismanna samþykktu samning sem kenndur var við samningamanninn Lee Buchheit.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þingsins fór svo að bóndinn á Bessastöðum ákvað að staðfesta ekki lögin og vísaði þeim til þjóðarinnar. Meirihluti hennar, með menn eins og Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Ögmund Jónasson ásamt fleirum í forystu, ákvað síðan í atkvæðagreiðslu að fella lögin og þar með samninginn. Þegar þar var komið mátti greina talsverðan óróa í liðinu sem að þessu hafði staðið og nú var talað um það af talsverðrum fjálgleik, að svo væri komið að nú yrði þjóðin að standa saman gegn hinu erlenda valdi sem að henni myndi sækja í framhaldi af höfnuninni.

Þau sem helst hefðu óskað þess að samningurinn hefði verið samþykktur féllust flest á það; að úr því sem komið væri yrði að gera það besta sem unnt væri og vinna úr þeirri stöðu sem upp væri komin á þann veg sem vit og geta leyfði. Fyrrverandi efnahags og viðskiptaráðherra, Árni Páll Árnason gekk síðan í að vinna málstað Íslands brautargengi og stóð sig svo vel í því verki, að er honum var fórnar í ráðherrakapli, þá voru það ekki síst þingmenn stjórnarandstöðunnar sem töldu óráð að víkja honum úr ríkisstjórninni, sem það vitanlega var.

Einu hafði gilt hve margir vísir menn vöruðu við höfnun samninganna og hve mikið reynt var að beita skynsamlegum rökum til að fá fólk til að greiða atkvæði um þá á vitlegan hátt til að koma málinu út úr heiminum. Máli sem hangið hafði yfir þjóðinni eins og Demoklesar sverð, allt frá því að ógæfuliðið sem stjórnaði Landsbankanum eftir einkavinavæðinguna, stofnaði til innistæðureikninga með hinu lokkandi nafni Icesave. Allt kom fyrir ekki, samningurinn var felldur og auðséð sem fyrr segir að mörgum þeim sem kokhraustastir höfðu verið var brugðið, ekki síst formanni Framsóknarflokksins Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

Hafi Sigmundi verið brugðið þá, er honum verulega brugðið nú og framsóknarforinginn  er búinn að finna sér vindmyllu til að takast á við, en vopnabúnaðurinn er ámóta bitlaus og ryðgaður og hjá fyrirmyndinni. Fyrirmynd Sigmundar var hugumstór, tefldi hiklaust á tvær hættur og hikaði hvergi. Framsóknarforinginn hefur ekki þá eiginleika til að bera og kann hugsanlega betur við sig í tryggu skjóli.

Hetjur íslenskrar fortíðar brugðust ókvæða við ef að þeim var veist, hjuggu þá mann og annan, ýmist í herðar niður eða hausar voru látnir fjúka. Þá þótti og gott að naga skjaldarrendur og orga kröftuglega með skælum, en ekkert slíkt stendur til hjá Sigmundi D. Gunnlaugssyni, því nú er úr honum allur móður og í því standi kann hann bara eitt ráð, kalla á hjálp, klaga og hanga í pilsfaldi ef ekki földum. Aumara getur það tæpast orðið. Hann er einfaldlega ,,búinn á því“, blaðran er sprungin, samanskroppin og vesöl.

Hann er fúll út í ESB, það er reyndar ekkert nýtt. Það sem er nýtt í málinu, er að maðurinn sem talaði fyrir svo ótrúlega stuttu síðan af myndugleika um að best af öllu væri að málið yrði afgreitt fyrir dómstólum, er þegar að því kemur að það verði gert hræddur og þá hamast í honum litla framsóknarhjartað.

Vitanlega er maðurinn hetja að vera formaður í því sem eftir er af því sem einu sinni var Framsóknarflokkur. Eða hvað?  Hugsanlega er ekki með öllu vonlaust að flokkurinn komist aftur að kjötkötlunum og geti þá tekið til við fyrri iðju, ef til vill með hinum helmingaskiptaflokknum Sjálfstæðisflokknum.

Verði þá eitthvað eftir af eigum þjóðarinnar, gæti hugsanlega verið hægt að sölsa eitthvað pínulítið af því undir hinn víða pilsfald maddömunnar ef lukkan verður með í för. Til þess eru líkast til hrútarnir skornir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband