4.1.2012 | 22:04
Hagfræði
Fyrir hálfri öld var mér komið fyrir í sveit hjá afasystur minni Helgu Hrefnu Bjarnadóttur og manni hennar Hafsteini Markússyni á Vogatungu í Leirársveit. Þar var gott að vera og margar góðar stundirnar átti ég með Hafsteini er hann var að sinna störfum sínum. Þeim búnaðist vel, ráku rausnarbú og kunnu þá hagfræði sem reynst hafði vel um aldir: sinna vel því sem unnið var að og reyna, svo mikið sem unnt var, að afla lítið eitt meira en því sem eytt var.
Oft var gestkvæmt á bænum, enda í þjóðleið og búið rausnarbúi sem gott þótti að sækja heim. Mér er það minnistætt þegar Hafsteinn tók á móti ungmenni sem komið var í heimsókn til gamalla húsbænda sinna, hafði verið ,,vinnumaður hjá þeim hjónum og var nú kominn til að rækta gömul kynni.
Tók Hafsteinn vel á móti honum eins og hann var vanur, spurði almæltra tíðinda og meðal annars þess hvað gesturinn ætlaði nú að fara að taka sér fyrir hendur. Sá kvaðst ætla í háskólanám. Hafsteini leist ekki illa á það, en sagði eitthvað á þessa leið og kvað nokkuð fast að orði: Það er nú gott góði minn, en bara að þú farir ekki að nema hagfræði.
Hinn reyndi bóndi hafði nefnilega tekið eftir því að fátt eitt gekk eftir af því sem svokallaðir hagfræðingar lögðu til; voru svona ámóta traustir í sínum ráðleggingum og veðurfræðingar þess tíma voru, að mati margra þeirra sem áttu allt sitt undir veðri og vindum.
Þetta var um 1960 og síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið, fjölmargt breyst, veðurspárnar orðnar til fimm, jafnvel sex daga, ámóta áreiðanlegar og dagsspáin var þá. Veðurfræðingarnir birtast nú daglega, með hjálp sjónvarpsins, inn í stofu hjá landsmönnum og útskýra gang lægða og hæða, allt á skiljanlegu máli og á svo ljósan hátt að flestir skilja. Veðurfræðin hefur þróast fram á veg, en hefur hagfræðin gert það? Er hún orðin skiljanlegri fræðigrein en hún var fyrir hálfri öld?
Útskýrt var á myndrænan hátt í Sjónvarpi allra landsmanna, að núverandi gjaldeyrisforði þjóðarinnar væri orðinn afar stór, hefði víst aldrei verið stærri, en að hann væri nánast allur tekinn að láni. Því mætti ekki eyða af honum og þó hann væri á vöxtum, þá væri það svo að greiða þyrfti mun meiri vexti til þeirra sem lánuðu gjaldeyrinn, heldur en það sem halaðist inn með því að lána hann öðrum.
Þetta er væntanlega hagfræði sem flestir skilja. Það felst ekkert ríkidæmi í því að taka dýrt lán í banka til þess eins að leggja það inn á reikning í öðrum eða sama banka á lægri vöxtum. Til hvers er þá verið að þessu?
Jú, það er gert til, að reyna að telja fólki trú um að ísl. krónan sé einhvers virði, þjóðin sé ekki á hausnum og að í framtíðinni verði hægt að fremja þann verknað, að aflétta gjaldeyrishöftum og nota krónuna eins og um alvöru mynt sé að ræða.
Halldór Ásgrímsson lét sig dreyma um Ísland sem fjármálamiðstöð, moldríkrar eyþjóðar í norður Atlantshafi, sem lifað gæti í vellystingum á kostnað annarra þjóða, vegna þess að hún væri með innbyggða snilligáfu, sem nær engum öðrum væri gefin. Bessastaðabóndinn trúði þessu líka og trúir enn.
Spurningin er þá hvort við, sem erum bara nokkurn veginn ,,venjulegir íbúar eylandsins, getum með einhverju móti trúað þessu líka og hvort við getum einnig talið okkur trú um að rétt sé gefið.
Hvort er líklegra að við, sem byggjum Ísland, séum bara nokkurn vegin eðlilegt fólk eða hitt, að við séum flestum öllum öðrum fremri?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.