30.12.2011 | 10:34
,,gamlir hundar"
Einn líflegasti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar og sá sem mest hefur endurnýjað sig er vafalaust Framsóknarflokkurinn. Nýr formaður, nýir þingmenn og látlaus hreyfing á hlutunum; einn kemur þá annar fer o.s.frv.
Nýorpnasti þingmaður flokksins Ásmundur Einar Daðason, fer mikinn á bloggi sínu og gengur svo langt að kalla félaga sína í pólitíkinni ,,gamla hunda. Ljóst má vera að ef sú nafngift stenst, þá er Ásmundur væntanlega réttnefndur ,,Ungur hundur, ef menn vilja endilega vera að hengja sig í indíánanöfn af þessu tagi. Spurning hlýtur að vera hvort rétt er að vera að nudda hinum fyrrum vesturheimska menningarheimi utan í íslenskt stjórnmálalíf með þessum hætti.
Stutt er síðan þingmaðurinn flutti búferlum frá Vinstri grænum og yfir í Framsóknarflokkinn og við blasir að honum hefur gengið frekar illa að fóta sig í sleipu gamla flórsins. Margur framsóknarmaðurinn kímir vafalaust í laumi yfir brölti hins unga þingmanns, unga í árum, en vissulega gamall og allt að því forn í hugsun, mundi víst margur vilja segja.
Þröngt er á jötunni og fremur takmarkað það sem gefið er á garðann hjá gamla miðflokknum og því er ekki eftir eins miklu að slægjast nú eins og áður var. Snorrabúð er stekkur orðin, ekkert Samband, engin útungunarstöð og ormagryfjurnar opnast hver af annarri, þannig að flestum er ljóst að gamli hentistefnuflokkurinn fór víða af sporinu og ef ekki flokkurinn sjálfur, þá að minnsta kosti ýmsir þeir sem trúnaðar nutu og störfuðu á hans vegum.
Framsóknarflokkurinn er nærri því að flosna endanlega upp. Formaðurinn bregst flestu því sem stuðningsmenn hans gerðu ráð fyrir að hann stæði fyrir og svo er komið að hann stendur fyrst og fremst fyrir efstastigs lýsingarorðaflaum, þeirrar gerðar sem nær því nánast að toppa Þór Saari þingmann Hreyfingarinnar, sem svo kallar sig og er þá langt til jafnað.
Inn í framsóknarsöfnuðinn flutti þingmaðurinn úr Dölunum og hefur vafalaust gert ráð fyrir, að þangað kominn, væri honum vís framinn. Það fór á annan veg eins og flestir vita, honum var einfaldlega komið fyrir á afviknum bás í þeirri von að þar léti hann lítið fyrir sér fara og hefur það gengið nokkurn vegin eftir. Af og til verður þó vart við lítils háttar brölt úr því horni, líkt og þegar kú, sem komin er að burði, stendur upp til þess eins að leggjast strax aftur, en þá á hina hliðina. Er þá, oftar en ekki, orðin svo upptendruð af tilvonandi burði að hún er hætt að muna eftir því að hún þurfi að halda áfram að jórtra
Svona getur nú farið fyrir ungum þingmanni sem tekur skakkan pól í hæðina, fyrr en varði er hann staddur í pólitísku svartholi, sem gleypir allt sem býðst, en engu hleypir út.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.